Barnalög

Fimmtudaginn 31. maí 2012, kl. 15:42:22 (11660)


140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

barnalög.

290. mál
[15:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í 2. umr. um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum. Ég hef undirritað nefndarálit ásamt öðrum þingmönnum í velferðarnefnd og ég held við séum öll sammála um að þetta sé stórt og mikið mál og það skipti miklu máli að ná að ljúka breytingum á barnalögunum á þessu þingi.

Það sem hafa verður að í huga varðandi umfjöllun og breytingar sem verið er að leggja til hér og raunar hvað varðar barnalögin er að undirstaðan í löggjöfinni og þessu frumvarpi sé alltaf hagsmunir barnanna, að í þeim ákvæðum sem við höfum þegar samþykkt frá Alþingi og þeim breytingum sem við erum að ræða hér sé grundvallarforsendan alltaf hagsmunir barnanna. Þó að það sé oft þannig þegar kemur að ágreiningsmálum milli foreldra að hver og einn vilji sjá hlutina út frá sínum sjónarhornum og sinni aðstöðu er það skylda okkar sem þingmanna og skylda þeirra sem koma að þessum málum að hafa ætíð í huga að allar ákvarðanir verða að byggjast á mati á því hvað er best fyrir börnin. Það er ástæða þess að við gerðum meðal annars þá breytingu á sínum tíma að almenna reglan væri sameiginleg forsjá, að foreldrar beri áfram lagalega ábyrgð á börnum sínum óháð því hvort foreldrarnir búi saman eða ekki, við skilnað, í hjónabandi eða sambúð eða eftir að hjón hafa skilið eða foreldrar slitið sambúð.

Hér erum við að taka næsta skref í því ferli og horfum þá til Norðurlandanna sem fyrirmyndar eins og svo oft áður. Við gerðum það þegar við tókum upp þessa reglu, almenna reglu um sameiginlega forsjá, og nú erum við að halda því ferli áfram með því að ákveða að dómari hafi heimild til þess að dæma sameiginlega forsjá í ágreiningsmálum.

Bent er á að við séum eina ríkið á Norðurlöndunum sem er ekki með slíka dómaheimild. Hún kom fyrst fyrir í löggjöf Noregs árið 1983, síðan í Finnlandi, í Svíþjóð 1998 og síðast í Danmörku árið 2006. Komin er umtalsverð reynsla hjá þessum löndum af því að hafa dómaraheimild í löggjöf, í framkvæmd, og reynslan hefur almennt verið góð. Við getum því svo sannarlega byggt á þeirra reynslu og ég tel því rétt að þessi heimild fari hér inn.

Ég treysti dómskerfi okkar fullkomlega til að fara vel með þessa heimild og byggja hana á einmitt þeim ramma sem við erum að leggja hér til að það hafi til hliðsjónar.

Síðan er líka mjög mikilvægt, í ljósi þess að verið er að fela margt af því sem menn litu á sem ákvarðanir um líf barns og fengist með því að hafa forsjána, að hér er annars vegar talað um sameiginlega forsjá sem er almenna reglan og hins vegar um að dómari fái heimild til að dæma lögheimilisforsjá. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að hafa í huga að þarna er verið að tala um tvo hluti og þó að hugsanlega komi upp ágreiningur á milli foreldra er það ekki samasemmerki milli þess að annað foreldri geti hugsanlega misst þessa lagalegu ábyrgð, sem ég held að nánast hvert einasta foreldri vilji hafa á sínu barni, heldur frekar að úrskurða um lögheimili.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson sagði í framsögu sinni að þetta er stórt skref og við verðum að sjá hvort reynsla okkar verði ekki jafnjákvæð og á öðrum Norðurlöndum.

Síðan er hugsanlegt í framhaldi af því að setja inn í lög líka að hægt sé að dæma þannig eða komast að samkomulagi um að börn geti haft lögheimili á tveimur stöðum þannig að foreldrar njóti sömu réttinda hvað það varðar og enn og aftur alltaf með hagsmuni barnanna í fyrirrúmi.

Ég vil líka taka undir það að sú áhersla sem kemur fram í frumvarpinu frá hæstv. innanríkisráðherra á sáttameðferðinni er mjög jákvæð. Og þrátt fyrir að nefndin sé að taka þá afstöðu að fara aftur til þess frumvarps sem undirbúningsnefndin, sem Hrefna Friðriksdóttir veitti formennsku, lagði til, erum við ekki að segja að sáttameðferðin skipti ekki máli. Við teljum einmitt að hún skipti mjög miklu máli. Það er mikilvægt að allir sem koma að sáttameðferðinni geri sér grein fyrir því að hún skiptir verulega miklu máli og menn nálgist hana með jákvæðum huga og reyni að komast að samkomulagi. Ef það gengur ekki er þetta raunar neyðarhemillinn sem við höfum í kerfinu til að taka á þessu.

Samt sem áður er forsendan fyrir því að dómari dæmi sameiginlega forsjá en ekki öðru foreldri, sú að hann telji foreldra geta náð samkomulagi. Enn á ný er áherslan alltaf á mikilvægi þess að foreldrar, að fólk sem eignast börn geri sér grein fyrir því að þetta er eitthvað sem það þarf að ná að halda utan um saman óháð því hvort fólk búi saman, að ábyrgðin á því að ala önn fyrir barni verður ætíð til staðar og líka að ábyrgðin á því að ná samkomulagi við hitt foreldrið verður ætíð til staðar óháð því hvort sambúð hafi gengið upp eða ekki.

Ég vil líka fagna þeirri áherslu sem kemur fram í frumvarpinu um að ofbeldi á heimili sé alltaf óásættanlegt og það mun hafa áhrif á mat á forsjárstöðu viðkomandi foreldris ef það beitir ofbeldi eða kemur ekki í veg fyrir að barn verði hugsanlega vitni að ofbeldi á heimilinu. Hvert einasta barn á rétt á því að búa við þannig aðstæður að það þurfi ekki að upplifa ofbeldi. Ég fagna þessu sérstaklega.

Ég tek líka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar og raunar líka hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um umgengniskostnaðinn. Það er skilningur minn, og mér skildist að við værum sammála um það í nefndinni, að taka yrði til skoðunar, samhliða nauðsynlegri endurskoðun á meðlagskerfinu, að kostnaður foreldra vegna umgengni og líka vegna greiðslu á meðlagi þarf að breytast í samræmi við þær breytingar sem við höfum verið að gera á forsjánni. Ég tel mjög brýnt að innanríkisráðuneytið ljúki sem fyrst vinnu við lagafrumvarp þess efnis og komi helst með það inn í þingið í haust þannig að við getum lokið því máli fyrir alþingiskosningar.

Ég vil síðan ítreka það að eins og ég hef skilið þau ákvæði sem varða umgengni barns eða rétt barns til umgengni við nána aðstandendur þegar annað foreldrið fellur frá eða er ófært um að gegna skyldu sinni sem foreldri, kannski vegna fangelsisvistar eða annars, það er ekki minn skilningur að þetta sé sambærilegur umgengnisréttur og til dæmis forsjárlaust foreldri mundi hafa. Þetta snýr að rétti barnsins til að fá að þekkja fjölskyldu sína, að fá að umgangast nána ættingja sína, en þetta er ekki að mínu mati þess háttar réttur að þessir nánu aðstandendur eigi sambærilegan rétt varðandi það til dæmis að geta verið með barnið aðra hverja helgi eða skipst á um það á jólum eða í páskafríum eins og þekkist hjá forsjárlausum foreldrum með umgengnisrétt. Þar vil ég enn á ný leggja áherslu á mikilvægi þess að hafa í huga að þetta eru alltaf hagsmunir barnsins og við erum að leggja þá skyldu á aðstandendur barnsins að þeir komist að samkomulagi, að þeir nái sáttum, og hafa í huga að ef átök og deilur eru milli fólks þá er sama hversu mikið það elskar viðkomandi barn, barnið líður fyrir það. Þetta vil ég leggja áherslu á.

Ég tel að þetta hafi verið skilningur okkar í nefndinni en það getur hins vegar verið nauðsynlegt að ítreka hann og það vildi ég gera hér í máli mínu.