Menningarminjar

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 12:39:33 (11763)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:39]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vildi byrja á því að þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem er framsögumaður málsins, fyrir einkar vandvirka og mikla vinnu í þessu máli í vetur. Þetta er flókið og umfangsmikið mál og leggur nefndin til einar átta breytingar við frumvarpið frá því að það kom fram. Megintilgangur frumvarpsins er að auka skilvirkni við minjavörslu með því að einfalda stjórnsýsluna, skýra betur hugtök og verklag, samræma verklag og afgreiðslu mála. Lagt er til að ný stofnun, Minjastofnun, taki við þeirri starfsemi er heyrir núna undir Fornleifavernd ríkisins og húsafriðunarnefnd. Það eru mörg álitamál í þessu sem við höfum rætt mjög ítarlega í vetur og enn erum við að fá ábendingar, málefnalegar ábendingar, t.d. frá fornleifafræðingum, um nokkur tiltekin efni. Við munum taka þau til umfjöllunar í nefndinni á milli 2. og 3. umr., svo að það sé sagt af því að ég veit að þeir hafa haft samband við marga og lagt fram margar ágætar ábendingar. Við munum því fjalla betur um þær á milli umræðna. Annars held ég að málið hafi þroskast vel og það er til mikilla umbóta á öllum sviðum að það gangi fram og verði að lögum.