Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 15:21:06 (11789)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær breytingar sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til að gerðar verði á frumvarpinu eru allar til lækkunar á gjaldinu, eins og ég fór yfir hér áðan, þar sem tekið er tillit til ýmissa hluta og gagnrýni sem hefur komið á frumvarpið og eiga að gera útgerðarfyrirtækjum miklu auðveldara að standa undir því en menn vildu meina áður. Við höfum reynt að gæta sanngirni, bæði gagnvart þeim sem eiga að greiða og gagnvart eigandanum, þannig að ég tel að niðurstaðan eins og hún er miðað við breytingartillögurnar sé ásættanleg.

Hv. þingmaður spurði um hve mikla lækkun væri að ræða frá því að frumvarpið var lagt fram. Ég geri ráð fyrir því að sá afsláttur og þær breytingar sem verið er að gera á frumvarpinu hvað það varðar muni lækka tekjurnar um 67 milljónir frá því sem áætlað var í frumvarpinu, þ.e. þær lækki það mikið. Sömuleiðis verða aðrar breytingar til þess, eins og uppreikningur á stofnverð sem liggur til grundvallar útreikningi á arðgreiðslunni, að samtals hlutfall af stofnverðinu plús það sem eftir verður af rentunni, sá hluti, aukist talsvert hjá þeim sem eru með nýtinguna, þ.e. útgerðina, en dragist að sama skapi saman hjá ríkinu þannig að þegar upp er staðið verði arðgreiðslan plús hagnaður fyrir skatta um 77–78% af því eftir hjá fyrirtækjunum en um 22% eftir hjá ríkinu.

Ég hef ekki tíma til að svara öðrum spurningum og mun gera það í síðara andsvari.