Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 22:11:39 (11890)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rífast um það hvort þessi formúla sé næm eða ekki. Ég geng bara út frá því að það sé rétt sem hæstv. ráðherra segir, að hún sé næm fyrir breytingum í afkomu. Þá er það eins og Alþýðusambandið hefur bent á að 20% styrking gengis krónunnar, sem er forsenda fyrir kjarasamningum, að ef sú forsenda gengur ekki eftir, segir Alþýðusamband Íslands, eru kjarasamningar í uppnámi. Það er af þeim ástæðum sem mér finnst það vera mjög óvarlegt þegar skrifað er inn í textann og gengið er beinlínis út frá því sem eins konar forsendu að niðurstaðan verði sú að að óbreyttu muni veiðigjaldið gefa okkur innan fárra ára um 20 milljarða kr. Þá erum við greinilega að ganga út frá því að gengi krónunnar verði að mestu leyti óbreytt. Það er ekki framtíðarsýn sem ég hafði búist við. Alþýðusamband Íslands segir að ef gengi krónunnar mundi hins vegar styrkjast væri almenningur að njóta þess og önnur fyrirtæki í öðrum rekstri en til dæmis útflutningsgreinum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra að nýju hvort hann sjái það fyrir sér að á næstu árum muni gengi krónunnar styrkjast og þar með tekjur af veiðigjaldinu lækka.