Veiðigjöld

Föstudaginn 01. júní 2012, kl. 22:21:06 (11897)


140. löggjafarþing — 111. fundur,  1. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú eiginlega nær því að vera það sem nú tíðkast að kalla meðsvar. Ég er sammála hv. þingmanni. Hann tók reyndar undir það sem ég sagði um atvinnugreinina. Ástandið skýrist af þessum meginþáttum og er mjög gott um þessar mundir og ég held því fram hiklaust að horfurnar séu líka ágætar, samanber það sem hv. þingmaður sagði og ég nefndi, að sjávarútvegur er matvælastóriðja og það er býsna álitlegt að vera sterkur í þeirri atvinnugrein ef horft er til framtíðar og framtíðarþarfa mannkynsins.

Það er auðvitað alveg rétt og ég fór aðeins yfir það áðan, ég hefði kannski þurft lengri tíma til að fara dýpra ofan í það, að auðlindarentan verður til af mörgum samsettum ástæðum. Að sjálfsögðu er ein af forsendum þess að hún sé til staðar og verði mikil, að greinin sé vel rekin, að hún sé tæknivædd, þróuð, að þar sé hæft og menntað starfsfólk o.s.frv. Allt leggur þetta saman í það púkk að við séum með verðmæta auðlind frá náttúrunnar hendi. Okkur hefur tekist vel að halda utan um nýtingu hennar, byggja hana upp og við erum með (Forseti hringir.) þróaða, vel rekna, tæknivædda grein og mikinn mannauð (Forseti hringir.) til þess að gera úr henni mikil verðmæti.