Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 16:14:02 (12325)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[16:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Á hverju ári blasir við manni mikilvægi markaðssetningarinnar og hvernig kerfin eru sett upp. Við þekkjum það að fiskveiðiárið okkar byrjar 1. september, og alltaf eftir áramótin þegar Norðmennirnir fara á fulla ferð inn í sitt sóknarmarkskerfi þá detta niður markaðirnir. Það er skýrasta dæmið um hvernig þetta er.

Hv. þingmaður kom töluvert inn á það í ræðu sinni og lýsti áhyggjum sínum af því hvaða áhrif skattlagningin mundi hafa á sjávarbyggðirnar. Ég tek undir þær áhyggjur með henni.

Mig langar líka að nefna eitt sem hv. þingmaður kom inn á. Hún sagði að núna væri gengið sterkt og þá gengi vel í sjávarbyggðunum, þá gengi vel í fyrirtækjunum og þar af leiðandi í byggðunum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. En við þurfum ekki að fara mörg ár aftur í tímann þegar gengið var mjög sterkt og þessu var akkúrat öfugt farið. Þá gekk félögunum sem treystu einmitt á sjávarútveginn miklu verr. Gengið var sterkt, tekjurnar voru lægri og fólk fluttist á suðvesturhornið eins og hv. þingmaður benti réttilega á.

Því vil ég spyrja hv. þingmann sérstaklega um sjávarbyggðirnar í ljósi þeirra umsagna sem borist hafa, en hún vitnaði töluvert í umsagnir í ræðu sinni. Hún nefndi skýrslu Byggðastofnunar þar sem fjallað er um þá fólksfækkun sem hefur átt sér stað og nefndi til að mynda sunnanverða Vestfirði. Núna hefur sú þróun reyndar snúist við. Fólki fjölgaði töluvert við síðustu áramót eða 1. desember síðastliðinn á sunnanverðum Vestfjörðum. Í umsögn frá Vesturbyggð koma fram einmitt varnaðarorð um áhrifin sem þetta gæti haft á samfélagið og hv. þingmaður fjallaði um það í ræðu sinni. Núna eru jákvæðir hlutir að gerast í uppbyggingu í kringum laxeldi og fleira. Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður geti ekki tekið að fullu leyti undir varnaðarorð forustumanna sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum um þessi áhrif. Nú þegar þróunin er að snúast við og farið að ganga vel, (Forseti hringir.) þá á að fara að skattleggja í hina áttina.