Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 17:40:30 (12355)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa óskað skýringa á ákvörðun forseta um að setja ofan í við hv. þingmann. Það er mjög mikilvægt að þingmenn fái að vita hvaða mistök þeir gera, ef mistök eru gerð á annað borð. Það hlýtur að vera í þágu allra og til þess fallið að bæta þingið að við þingmenn lærum af mistökunum þegar forseti telur að við förum yfir strikið, þannig að þau endurtaki sig ekki. Það er afar óheppilegt, frú forseti, ef þingmenn standa hér og gera sömu mistökin aftur og aftur. Því er mikilvægt að forseti útskýri hvað það var sem hv. þingmaður gerði og að mati forseta þurfti að leiðbeina þingmanninum um, þannig að þetta eigi sér ekki stað aftur. Ég óska eftir því að frú forseti upplýsi það svo við getum lært.