Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 20:38:49 (12394)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í upphafi ætla ég að minnast á það, af því að þingmaðurinn fór yfir það í fyrra andsvari, að þetta mál ber öll einkenni umræðunnar um IPA-styrkina. Fyrst er búin til gulrót og sett inn eitthvað jákvætt, eins og t.d. það sem á að gera hringinn í kringum landið fyrir IPA styrkina og verkefnin sem á að ráðstafa veiðileyfagjaldinu í næstu ár, það er talað um einhverja jákvæða uppbyggingu og slíkt. Það er alltaf byrjað á því að skapa væntingar og svo er sagt við okkur þingmenn: Þið verðið að samþykkja þetta, þetta er komið fram og búið að ráðstafa þessu fé og þið verðið bara að gjöra svo vel að samþykkja. Ég vildi nefna þetta í upphafi.

Allir þeir tekjustofnar sem ríkisstjórnin hefur ætlað sér að ná í með aukinni skattheimtu hafa nánast hrunið og skila ekki nógu miklum hagnaði. Það er náttúrlega þekkt, samanber Laffer-kúrfuna, að ef farið er of hátt í skattlagningu fara tekjurnar að hrynja. Annaðhvort dregur úr neyslu eða neyslumynstur breytist á annan hátt og það er einmitt að gerast í virðisaukaskattinum og til dæmis varðandi eldsneytisverð. Tekjurnar drógust saman um 4 milljarða að mig minnir eftir hækkun á eldsneytisverði.

Ég held að sjávarútvegurinn sé næsta og síðasta fórnarlambið hjá þessari ríkisstjórn. Eins og hv. þingmaður fór yfir tók hæstv. þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon, fyrir fram lán hjá stóriðjunni skömmu eftir að hann tók við fjármálaráðuneytinu. Hugsið ykkur, af stóriðjunni, hann er formaður Vinstri grænna. Þeir hafa barist á móti stóriðjunni og viljað álver burt af Íslandi. Hvernig var slagorðið? Ekkert ál heldur kál eða eitthvað slíkt? Formaður Vinstri grænna fer þar fremstur í flokki og tekur fyrir fram greidda skatta hjá stóriðjunni og skellir inn í ríkisreikning. Það á að endurgreiðast en í endurgreiðsluákvæðinu segir auðvitað að skili álverin ekki eins miklum hagnaði og þau reiknuðu með þegar skattarnir voru fyrir fram greiddir þarf ríkissjóður að greiða þetta til baka á fullum vöxtum. En þá verður Ísland vonandi laust við þessa vanhæfu (Forseti hringir.) ríkisstjórn sem nú situr og það er þá okkar að takast á við að (Forseti hringir.) breiða yfir þann skít sem þessi ríkisstjórn hefur skapað hér.