Veiðigjöld

Miðvikudaginn 06. júní 2012, kl. 23:37:46 (12446)


140. löggjafarþing — 114. fundur,  6. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort þetta er hótun um kosningar frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, það má vel vera. Eins og ég sagði áðan þá er ríkisstjórnarheimilið eins og viðkvæm púðurtunna, maður finnur það á öllu hér á þinginu.

Gæti staðreyndin verið sú að hún sé farin að átta sig á því að þetta eru ónýt frumvörp? Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir mætir nokkuð vel á fundi atvinnuveganefndar og spyr margs. Af því hvernig málsmeðferðin hefur verið þar er ég viss um að hún hefur fengið svör og útskýringar, oft í löngu máli, við þeim spurningum sem hún hefur lagt fram. Ég vona að hún hafi lært af þeim svörum sem hún hefur fengið. Ég vona að hún hafi breytt eitthvað um skoðun. Ég óttast að svo sé ekki, (Forseti hringir.) að engu tauti sé við marga þingmenn stjórnarflokkanna komandi í þessu máli. Ég vona að ástæðan liggi þá þar, (Forseti hringir.) að hv. þingmaður sé að átta sig á því að málin eru ónýt og að betra sé að láta þjóðina afgreiða þau út af (Forseti hringir.) borðinu en gera það sjálf á þingi.