Veiðigjöld

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 20:07:34 (12639)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um það hygg ég í aðalatriðum, að að óbreyttu kerfi standi greinin í öllum meginatriðum undir þessu gjaldi enda sé tekið tillit til þeirra skulda sem menn hafa stofnað til frá 2002 og til þessa dags. Það verður auðvitað að horfa á ákveðna fortíð í þessu og gefa mönnum svigrúm til þess að afskrifa þann kvóta sem þeir hafa keypt og greiða þær skuldir sem þeir hafa stofnað til í því sambandi.

Þá hlýtur maður líka að spyrja um nýjar tegundir, hvort hv. þingmaður telji að það sé ástæða til þess að fara öðruvísi með til að mynda makrílinn sem eru sannarlega ekki veiðiheimildir sem menn hafa greitt fyrir heldur eru heimildir sem hefur rekið hér á fjörur okkar á allra síðustu missirum. Væri eðlilegt að menn greiddu miklum mun meira fyrir þær heimildir en heimildir í öðrum tegundum sem gengið hafa kaupum og sölum?