Veiðigjöld

Föstudaginn 08. júní 2012, kl. 13:58:06 (12701)


140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[13:58]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann fór allnokkrum orðum um byggðamálin, byggðapottinn í ræðu sinni og tengdi það fjárlagagerðinni. (Utanrrh.: Láttu hann heyra það.) Ég ætla ekki að inna hv. þingmann eftir því hvort hann sjái hluta af andvirði veiðiskattsins renna til utanríkisþjónustunnar en væntanlega geri ég ráð fyrir því að hann taki ágætlega í það (Gripið fram í.) að létta hæstv. utanríkisráðherra lífið við sína vonlausu för áleiðis inn í Evrópusambandið sem stuðningur við virðist óðum vera að hverfa, því miður fyrir hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) en til mikillar ánægju fyrir stóran hluta Framsóknarflokksins og ég treysti á að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sé í þeim hópi.

Ég hefði gjarnan viljað inna hv. þingmann eftir því hvort það mál sem hann hafði forgöngu um þegar við áttum sæti saman í fjárlaganefnd fyrir allnokkru síðan, ekki heybaggamálið til að fóðra einstaka flokkshesta Samfylkingarinnar sem sumir hverjir sitja í salnum (Gripið fram í.) heldur þvert á móti það mál sem hv. þingmaður gekkst fyrir og laut að byggðaúttektum fjárlagafrumvarpsins. Ég vildi gjarnan inna hv. þingmann eftir afdrifum þess máls, hvort hann hefði orðið mikið var við það í umræðunni um veiðigjaldið að ætlunin sé að nýta það til þess að koma í veg fyrir þau stóru slys sem eru fyrirsjáanleg á ýmsum svæðum í grunnþjónustunni sem ríkissjóði er fyrst og fremst ætlað að veita.