Veiðigjöld

Föstudaginn 08. júní 2012, kl. 20:01:41 (12787)


140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér höldum við áfram að ræða um veiðileyfagjald eins og það er kallað en er í raun og veru skattheimta. Eins og komið hefur komið fram í umræðum í dag verður að fá úr því skorið hvort þetta sé raunverulega skattheimta eða ekki því að það sem lagt er fram í frumvarpinu á ekkert skylt með hugtakinu gjaldi þar sem aðrar reglur gilda um gjöld en skatta. En við sem höfum gert athugasemdir við að málið fari til efnahags- og skattanefndar vonumst til að nefndin geti fengið aftur til sín sérfræðinga sína og okkar bestu lögmenn og lögfræðinga til þess að svara því hvort um gjald er að ræða eða ekki.

Ég er hér með nefndarálit frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar, frá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í atvinnuveganefnd. Þetta er mjög greinargott nefndarálit og tekur á mörgum þáttum. Þar kemur fram að ekkert samráð hafi verið haft í málinu, eða eins og segir þar: „… ekkert samráð var haft — ekki neitt við neinn.“ Ekkert samráð var haft við vinnslu frumvarpsins eða í nefndinni um neitt eða við neinn. Það er stór yfirlýsing en komið hefur fram í umræðum á Alþingi að þannig var málið unnið.

Þarna stendur að ekki hafi verið haft samband við Hagstofuna, þrátt fyrir að aðferðafræðin sem lögð er til varðandi gjaldtökuna ætti uppruna sinn hjá Hagstofunni. Það stendur nefnilega í 10. gr. frumvarpsins, sem ber heitið reiknuð renta, með leyfi forseta:

„Söluverðmæti afla og afurða skal byggjast á upplýsingum sem Hagstofa Íslands vinnur árlega úr skattframtölum og aflar frá fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu, ásamt upplýsingum frá Fiskistofu, að teknu tilliti til breytinga á verðvísitölu sjávarafurða frá meðaltali þess tekjuárs sem framtölin byggjast á til 1. apríl ár hvert fyrir ákvörðun veiðigjaldsins.“

Svo þegar gluggað er í frumvarpið sjálft um 10. gr. kemur fram, með leyfi forseta:

„Í greininni er kveðið á um hvað felst í reiknaðri rentu eins og það hugtak er notað í frumvarpinu. Er þar fylgt hefðbundinni skilgreiningu á rentu sem mismun á afurðatekjum og tilkostnaði. Í stað fjármagnskostnaðar samkvæmt bókhaldi er fjármagnstengdum gjöldum og reikningslegum afskriftum sleppt en í stað þeirra kemur reiknuð ávöxtun á verðmæti varanlegra rekstrarfjármuna. Er þetta sama skilgreining og Hagstofa Íslands hefur notað í mati sínu á afkomu í sjávarútvegi með því fráviki að vörubirgðir eru taldar með þeim rekstrarfjármunum sem lagðir eru til grundvallar útreikningi á fjármagnskostnaði. Tekið er fram að sölu og leigu á aflaheimildum skuli reikna til tekna til viðbótar við söluverð afurða enda kemur greidd leiga og niðurfærsla á kaupverði heimilda til frádráttar sem kostnaður eins og heimilað er í skattalögum.

Þá er í greininni kveðið á um hvernig skuli afla upplýsinga um þá þætti sem þarf til að reikna og áætla rentuna. Er það gert með svipuðum hætti og nú er gert hjá Hagstofu Íslands sem safnað hefur þessum upplýsingum árum saman og birt þær reglulega. Þar sem nokkur tími er liðinn frá því tímabili sem aðgengilegar upplýsingar liggja fyrir um er lagt til að þær verði framreiknaðar. Tekjurnar verði hækkaðar eða lækkaðar með verðvísitölu sjávarafurða og kostnaður með vísitölu verðlags og eftir atvikum byggingarkostnaðar. Með því fæst nálgun við það aflaverðmæti og þann kostnað sem ætla má að verði á komandi fiskveiðiári.“

Hér er nákvæmlega útlistað hvernig Hagstofa Íslands á að fara með þær reiknikúnstir sem eru í frumvarpinu. Samkvæmt þessu fer frumvarpið gegn stjórnarskránni vegna þess að verið er að sækja heimildir aftur í tímann og lög mega ekki vera afturvirk eins og flestir vita. Það sem er sérlega ámælisvert við þetta er að þessi ríkisstofnun, Hagstofan, hafi ekki verið höfð með í ráðum við vinnslu þessa frumvarps og ekki látin vita að afleiðingarnar af þessu frumvarpi, verði það að lögum, lendi beint í fangi hennar.

Í nefndaráliti 2. minni hluta kemur einnig fram að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila greinarinnar þrátt fyrir að því sé haldið fram að byggt sé á niðurstöðu samráðs- og sáttanefndar sjávarútvegsráðherra frá haustinu 2010. Ekki var haft samráð við sveitarfélögin þrátt fyrir að samkvæmt frumvarpinu verði tíu sinnum hærri upphæð tekin út úr sjávarútvegssamfélögunum en áður. Ekki var haft samráð við aðila á vinnumarkaði þrátt fyrir stöðugleikasáttamálann og samninga við þau um gerð kjarasamninga. Hafa allir þessir aðilar gagnrýnt samráðsleysið harðlega.

Svona vinnubrögð eiga ekki að sjást á Alþingi. Þau eru ekki boðleg Alþingi sem löggjafarstofnun og þess vegna væri best að frumvarpið færi aftur til nefndar eða yrði hreinlega dregið til baka og stofnaður hópur til að reyna að ná sáttum um málið á ný. Ég minni á að samráðshópurinn frá árinu 2010 náði slíkri sátt að hæstv. forsætisráðherra taldi það ófært því að hún ætlaði sér að hafa sjávarútvegsmálin í ósátt. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra telji að það sé ríkisstjórn hennar til framdráttar að vera í stríði við þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og hefur það margoft komið fram að hæstv. forsætisráðherra velur ófrið þótt friður sé í boði.

Komið hefur fram í skoðanakönnunum undanfarið að þessi vinnubrögð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur ganga ekki lengur í landsmenn og hafa ef til vill aldrei gert. Jú, Samfylkingin fékk ágætisfylgi í síðustu kosningum en síðan hefur það hrapað. Í fréttum eftir síðustu skoðanakönnun kom ansi einkennileg túlkun fram hjá ákveðnum aðila þegar Sjálfstæðisflokkurinn mældist með mjög mikið fylgi, þá voru skýringarnar þær að Sjálfstæðisflokkurinn mældist svo stór vegna þess að verið væri að ræða sjávarútvegsmálin á þingi. Það hefði einmitt akkúrat átt að vera á hinn veginn vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur talað þessa atvinnugrein svo niður og kallað þá sem í greininni starfa mörgum illum nöfnum, verð ég að segja, það er ekkert hægt að segja annað. En hæstv. forsætisráðherra kemst upp með það á Alþingi, í þessum ræðustól, að vera með fúkyrðaflaum um ákveðna aðila án þess að fá áminningu frá forseta þingsins. Það er mjög einkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að þingmenn stjórnarandstöðunnar fá ávítur í ræðustól fyrir mun vægara orðalag.

Í nefndaráliti 2. minni hluta er vísað í umsagnir sveitarfélaga. Vísað er í umsögn Fjarðabyggðar, Vestmannaeyjabæjar, hreppsnefndar Vopnafjarðar, Snæfellsbæjar, bæjarskrifstofa Grindavíkur og fleiri aðila þar sem lýst er neikvæðum áhrifum þessa frumvarps sem ég hef því miður ekki tíma til þess að fara yfir nú. Í nefndarálitinu kemur fram umsögn frá Landsbankanum sem er að mínu mati svo sláandi, þ.e. fulltrúar Landsbankans komu á fund nefndarinnar og bentu atvinnuveganefnd á að færi þetta frumvarp í gegn og yrði að lögum óbreytt þyrfti Landsbankinn að afskrifa 31 milljarð kr. Hvers vegna veit hægi höndin ekki hvað sú vinstri gerir hjá þessari ríkisstjórn? Eins og allir vita er Landsbankinn ríkisbanki. Ef frumvarpið fer óbreytt í gegnum þingið og menn ná inn 15 milljörðum í skatt þarf Landsbankinn að afskrifa 31 milljarð.

Til þess að það komi fram í þingtíðindum vil ég minna á að verði frumvarpið að lögum óbreytt tapar ríkissjóður þarna 31 milljarði í gegnum Landsbankann. Það kom í ljós í dag að hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra fór með ríkisábyrgð í SpKef og er það nú að koma í hausinn á ríkinu á nýjan leik, 20 milljarðar liggja eftir hann þar. Ég fékk svar nú í vikunni um hrun virðisaukaskattsstofnsins hér á landi upp á 40 milljarða þannig að nú er ljóst að ríkissjóður tapar tæpum 100 milljörðum (Forseti hringir.) á þessum þremur aðgerðum hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar. Er það boðlegt af ráðherra?