Veiðigjöld

Föstudaginn 08. júní 2012, kl. 22:08:21 (12833)


140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[22:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það skyldi þó ekki vera að við fáum meiri skilning á því hvert hv. stjórnarþingmenn eru að fara með því að lesa gamlar fréttir úr Þjóðviljanum í stað þess að reyna að fá eitthvað upp úr hv. stjórnarþingmönnum. Við ræðum þessa hluti fram eftir nóttu og virðulegur forseti vill ekki einu sinni láta okkur vita hvenær við munum hugsanlega fá að sjá börnin okkar. Látum það liggja á milli hluta, en stjórnarliðar taka ekki þátt í umræðunni. Ef þeir taka þátt í umræðunni er eins og þeir hafi ekki þann skilning sem til þarf til að tala um þessi mál. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er hvað eftir annað búinn að reyna að útskýra einföldustu hluti eins og kennari en hann þarf augljóslega að gera það oftar vegna þess að það koma engin viðbrögð frá hv. þingmönnum.

En kannski er lausnin sú að við förum á timarit.is og skoðum gamla Þjóðvilja (Forseti hringir.) því að þar er kannski útskýringin á inntaki málflutnings (Forseti hringir.) hv. stjórnarþingmanna.