Veiðigjöld

Föstudaginn 08. júní 2012, kl. 23:06:56 (12865)


140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[23:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður flutti athyglisverða ræðu þar sem þingmaðurinn gagnrýndi eðlilega einstaka þætti í frumvarpinu og breytingartillögunum. Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég tók ekki alveg eftir því hvort hv. þingmaður fjallaði um spurningu sem hann var að velta fyrir sér til hliðar, þ.e. um það hvernig farið yrði með þá fyrningu sem talað er um í frumvarpinu, að við sölu aflaheimilda eigi 3% að falla niður ef ég man þetta rétt. Mig langar bara að spyrja hv. þingmann hvort þingmaðurinn hafi frá því að ég heyrði hann tala um þetta fengið einhver svör við þeirri spurningu.

Eins langar mig að spyrja þingmanninn út í það hvaða áhrif mögulegt er að þessi frumvörp, sér í lagi veiðigjaldafrumvarpið, hafi á virði hlutabréfa í þeim fyrirtækjum í sjávarútvegi sem eru á markaði. Þá er ég ekki bara að velta fyrir mér útvegsfyrirtækjum heldur líka þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveg með einum eða öðrum hætti. Stór fyrirtæki eru að gera það, t.d. fyrirtæki sem selja kost og ýmislegt annað, fyrir utan fjármálafyrirtækin sem fjármagna og lána þá sjávarútveginum fyrir framkvæmdum, fjárfestingum og öðru. Einhver áhrif hlýtur það að hafa þegar geta fyrirtækjanna er minnkuð með þessum hætti. Því spyr ég hvort þingmaðurinn sjái áhrifin fara beint á virði þeirra eða eingöngu í getu fyrirtækjanna til að halda áfram að kaupa vörur og þjónustu sem er svo mikilvægt í okkar samfélagi sem gengur út á sjávarútveg í allri þeirri mynd sem hægt er að hugsa sér sjávarútveginn, hvort sem það er bein þjónusta, t.d. sala (Forseti hringir.) á hráefni eða veiðarfærum.