140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þeir þættir sem hv. þingmaður nefndi að þyrftu að vera til staðar eru að mínu mati augljósir. Það þarf að sjálfsögðu að taka tillit til þess að fyrirtækin geti fjárfest, geti stundað nýsköpun og geti greitt starfsfólki sínu góð laun. Þetta eru auðvitað allt hlutir sem menn hljóta að líta til þegar þeir hanna kerfi til að stjórna fiskveiðum. Reyndar hefur þó tekist það vel til að íslenskur sjávarútvegur er líklega sá sjávarútvegur sem skapar mest verðmæti í heiminum miðað við veiddan fisk. Það var svo sannarlega ekki alltaf þannig, það eru ekki margir áratugir síðan menn veiddu umtalsvert meira en nú en greinin var engu að síður oft og tíðum baggi á ríkissjóði.

Er ekki eðlilegast við þessar aðstæður, í ljósi árangurs undanfarinna 30 ára, að menn reyni að fínstilla þetta kerfi, en taki reyndar mið (Forseti hringir.) af byggðasjónarmiðum líka og getu greinarinnar til að borga há laun. (Forseti hringir.) Svo ég pakki þessu öllu saman í eina spurningu, virðulegi forseti (Forseti hringir.) — en það er ekki tími til þess og ég vona að hv. þingmaður hafi skilið mig.