140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Það er mikilvægt að hafa það í huga þegar menn tala um þetta kerfi að flestir stjórnmálaflokkar hafa komið að því með einhverjum hætti, breytingum á kerfinu eða með því að setja það á fót. Það er ágætt að halda því til haga því að sumir stjórnmálaflokkar virðast ekki kannast við að hafa verið í ríkisstjórn eða komið nálægt þessu kerfi.

Þær breytingar sem hv. þingmaður nefndi hafa verið mjög stórar og gert kerfið sveigjanlegra að mörgu leyti. Við sjáum að þegar smábátakerfið var tekið upp í þessu kerfi varð töluverð breyting á högum smábátasjómanna. Ef ég man rétt sóttust þeir einmitt eftir því að vera þátttakendur í þessu kerfi. Ef ég man þetta rangt þá verður það bara leiðrétt. Það er mikilvægt í mínum huga að þetta kerfi haldi áfram (Forseti hringir.) og verði nýtt til að efla áfram hag Íslendinga.