140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[00:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að ég held að engin umsögn sem barst hv. atvinnuveganefnd um þessi mál hafi verið á jákvæðum nótum nema ef vera skyldi umsögn samfylkingarfélags á Suðurnesjum. Gagnrýnin er auðvitað getum við sagt á mjög víðum vettvangi. Hún var frá því að vera gagnrýni á einstök efnisatriði og upp í það að lýsa miklum áhyggjum umsagnaraðila á því hversu illa frumvörpin væru unnin og hve óljósar afleiðingar þeirra yrðu. Þannig má segja í stórum dráttum að umsagnir sveitarfélaga hringinn í kringum landið endurspegluðu mjög þá óvissu sem skapaðist til dæmis vegna tekna þeirra, áhrifa á það, áhrifa á íbúana og störfin. Síðan er hægt að taka gegnumsneitt gagnrýni verkalýðsfélaganna í landinu sem auðvitað eru að hugsa um áhrifin á launþegana, áhrifin á laun fiskverkafólks, áhrif á laun sjómanna. Því hefur verið haldið fram, til dæmis við nefndina, að aflahlutaskiptakerfi sjómanna sem launakerfi sjómanna byggist á yrði ónýtt. En spurningin er fyrst og fremst hjá þessum aðilum: Af hverju er ekki búið að vinna þetta betur? (Forseti hringir.) Af hverju er ekki búið að fara ofan í þessi mál og skoða afleiðingarnar? Við eigum það eftir, við skulum viðurkenna það.

Hv. stjórnarþingmenn hafa að mörgu leyti verið á harðahlaupum (Forseti hringir.) undan eigin tillögum í þessu máli en við eigum mikla vinnu eftir.