140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan er neikvæðar tilfinningar. Sumir kalla það heift, reiði, eitthvað slíkt, sem hefur verið til staðar um árabil vegna þess að í árdaga seldu margir útgerðarmenn kvótann frá sér. Það voru yfirleitt skussarnir sem voru keyptir út fyrir óhemjufé. Fólk skildi það ekki og var reitt yfir því. Ég man eftir því að einhvers staðar seldu menn, sem gátu alls ekki rekið fyrirtæki sitt, fyrirtækið með gífurlegum hagnaði, 200–300 milljónum. Þá upphæð fengu þeir fyrir skipin og kvótann. Þetta skapar óánægju, heift og reiði. Hún er viðvarandi og er á bak við margar þessara breytinga. Eins og ég gat um áðan hafa samt þeir útgerðarmenn sem eru starfandi í dag ekki selt, þeir hafa flestir keypt. Þeir sem ekki hafa keypt hafa aldrei selt þannig að þeir falla ekki undir þennan hóp kvótagreifa. Þetta held ég að sé ein ástæðan.

Önnur ástæða er töluvert mikil óbilgirni samtaka útgerðarmanna. Þeir hafa verið mjög óbilgjarnir gagnvart kröfum um breytingar og ekki viljað sjá þessa kröfu um þjóðareign sem ég veit reyndar ekki hvað er. Þetta hefur allt leitt af sér kerfi sem er mjög njörvað niður í lög og slíkt og ég hef stundum sagt að útgerðin beri mesta helsi allra atvinnugreina í heiminum. Samt stendur hún sig glimrandi vegna þess að auðlindin er svo ofboðslega rík. Ég held að markmiðið hjá okkur ætti að vera að létta þessum hlekkjum af útgerðinni þannig að hún fari virkilega að græða og að sá gróði fari þá til þjóðarinnar. Ég hef reyndar lagt fram þannig frumvarp en við erum ekki að ræða það núna.