140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil koma aðeins inn á lengd þingfunda sem við vorum að ræða við hæstv. forseta áðan. Það kom fram hjá formanni þingflokks Vinstri grænna að við ættum að vera hér fram að vaktaskiptum kl. 6.30, gott og blessað. Það er þá kannski eitthvert viðmið sem við tökum, það er það eina sem við höfum fengið frá meiri hlutanum. Við erum nú þegar búin að vera í 14,5 tíma á vaktinni frá því hálfellefu í morgun með eins og hálfs tíma matarhléi. Við erum búin að vera sex tíma núna frá síðasta matarhléi og í eldhúsinu er ekki boðið upp á miklar veitingar.

Það hlýtur að vera eðlileg krafa að fara fram á að gert verði matarhlé og boðið verði upp á mat, sérstaklega ef við eigum að vera að til hálfsjö, þá sé komið að því að gera hlé á þingfundi þannig að þingmenn geti fengið sér að borða og komið svo hingað aftur (Forseti hringir.) galvaskir til að taka til við þar sem frá var horfið.