140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[02:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti mikilvægt að heyra hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, sem er einn fjölmörgum landsbyggðarþingmönnum, koma inn á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir höfuðborgarsvæðið. Ég hef reyndar komið inn á það í ræðum mínum hvað mér finnst vont að upplifa áhugaleysi forustumanna stærstu útgerðarbæjanna á suðvesturhorninu, sem eru Reykjavík og Hafnarfjörður. Við vitum að tækniframfarir hafa áhrif á hagræðingu í sjávarútveginum. Tæknin hefur þróast og það hefur stuðlað að fækkun starfa meðal sjómanna og fiskvinnslufólks. En á móti kemur að ýmis sprotafyrirtæki hafa komið úr sjávarútveginum eins og hann er rekinn núna þannig að nýsköpun er í miklum blóma, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Ég sakna þess að áhuginn komi ekki fram í máli annarra þingmanna, einkum þá þingmanna stjórnarflokkanna af suðvesturhorninu. Þeir láta varla sjá sig í ræðustól nema hv. þm. Magnús Norðdahl.

Ég vil spyrja hv. þingmann sem er í forustu Framsóknarflokksins hvort ekki sé enn þá ástæða til að vera bjartsýnn á að hægt verði að ná sáttum í málinu þó að menn séu með einhverja hótfyndni um að halda áfram þingfundi fram undir morgun, að menn geti talað sig niður á góða niðurstöðu. Allir þurfa að gefa eftir til að ná fram niðurstöðu sem menn geta búið við til lengri tíma.