140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[03:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svolítið ósamræmi? Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að reyna að vera kurteis með því að taka svona til orða. Auðvitað er ekki „svolítið“ ósamræmi milli orða hæstv. ráðherra og þeirra frumvarpa sem við erum að ræða, það er algjört ósamræmi. Það er ekkert samræmi þarna á milli. Það sama á við um yfirlýst markmið þessara frumvarpa eins og því er lýst í greinargerðum með þeim. Hlutir sem eiga að heita markmiðin með framlagningu frumvarpanna ganga algjörlega í berhögg við mat sérfræðinga á áhrifum þeirra. Í rauninni er það nokkurs konar spegilmynd, yfirlýsingin um hverju menn ætla sér að ná fram með þessum frumvörpum og svo það sem sérfræðingarnir segja að þau muni leiða af sér.

Hér komum við enn og aftur að þessari öfugu hugtakanotkun sem hefur því miður einkennt þessa ríkisstjórn en það er þekkt fyrirbæri í stjórnmálasögunni að þegar stjórnvöldum gengur illa, þegar allt gengur á afturfótunum, bæta þau í í ýktri hugtakanotkun, lýsa því sem stjórnvöld eru að framkvæma sem stórkostlegu og gera alla gagnrýnendur stjórnvalda tortryggilega á einn eða annan hátt. Hv. þingmaður lýsti því í fyrra andsvari hvernig reynt hefur verið af hálfu stjórnvalda að saka alla þá sem gagnrýna þessa stefnu og þessi frumvörp um að vera taglhnýtingar einhverra hagsmunasamtaka í stað þess að svara með rökum þeirri gagnrýni sem (Forseti hringir.) beint hefur verið að stjórnvöldum.