Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 12:22:11 (13053)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[12:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Þegar þing er að störfum samkvæmt þingsköpum ber þingmönnum einfaldlega að vera á Alþingi þannig að mér er ekki heimilt samkvæmt þingsköpum að fara austur á land. Ég ætla auk þess að taka þátt í efnislegri umræðu um þetta mál áfram þannig að hér verð ég.

Hv. þingmaður nefndi Fljótsdalshérað og framsóknarmenn á Fljótsdalshéraði, að þeir hefðu ekki skilað inn umsögn um málið. Það að skila ekki inn umsögn um málið táknar ekki gríðarleg fagnaðarlæti. Hins vegar er í yfirlýsingu frá 131 sveitarstjórnarmanni í landinu, nokkrum samfylkingarmönnum og vinstri grænum, lagt til, með leyfi forseta:

„Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð,“ — þá er verið að vitna til umsagna — „sem fylgja frumvörpunum, séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að „umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með enn minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er.

Við slíkt verður ekki unað.“

Þetta er yfirlýsing frá 131 sveitarstjórnarmanni, fulltrúum allra flokka, alla vega fjögurra þeirra sem eiga sæti á Alþingi. Þetta fólk hefur verið kjörið til ábyrgðarstarfa fyrir sín sveitarfélög. Þetta fólk hefur mikla þekkingu og vitneskju um samfélög sín og rekstrarskilyrði fyrirtækja sem þar eru. Mér þykir miður að fulltrúar Samfylkingarinnar á þingi, ekki hvað síst frá landsbyggðinni, hlusti ekki á varnaðarorð sem koma frá þessum aðilum og öllum nema einum umsagnaraðila um þetta mál. Það var einn sem var fylgjandi því og það var Samfylkingarfélagið í Reykjanesbæ.