Húsnæðismál

Föstudaginn 15. júní 2012, kl. 14:11:42 (13712)


140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi síðari spurninguna. Eins og ég skil þær aðgerðir sem eru boðaðar í frumvarpinu þá held ég að verið sé að bregðast við á eins hófsaman hátt og hægt er. Ég er ekki fylgjandi því að menn fari í gagngera uppstokkun á Íbúðalánasjóði á þessum tímapunkti. Ég er alla vega mjög andsnúinn því að menn fari í einhverja uppstokkun á sjóðnum með það að markmiði að veikja hlutverk hans, þ.e. þau hlutverk sem ég tel að sjóðurinn eigi að hafa, þ.e. að vera félagslegt lánaúrræði og hjálpa til á þeim vettvangi, hvort sem er með íbúðalán til kaupa á eign eða byggingu, eða þá í þennan leiguhluta.

Ég held hins vegar að menn verði að vera opnir fyrir því að skoða hvort gera þurfi einhverjar breytingar til að styrkja þá þetta hlutverk hans. Við vitum það, og hv. þingmaður veit það jafn vel og ég, að sjóðurinn hefur í gegnum tíðina haft geysilegt hlutverk úti um allt land í að lána á góðum kjörum til þessara verkefna og það má að mínu viti ekki breytast. Auðvitað verðum við að taka það alvarlega þegar við fáum athugasemdir sem þessar því að við erum innan þessa svæðis, EES-samningsins, og verðum að spila þann leik sem þar er spilaður.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að töluverður meiningarmunur er á milli stefnu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þegar kemur að þessum málum og hefur alltaf verið. Það er alveg ljóst og ég ítreka það sem ég kom inn á áðan að það hefur oft, við skulum segja hvesst milli þessara flokka þegar þessi mál eru rædd því að töluverður munur er þarna á. Ég segi það hreinlega út að sá munur hefur ekki verið leiddur í jörð enn þá.