Innheimtulög

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 11:23:04 (13845)


140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

innheimtulög.

779. mál
[11:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem blönduðu sér í þessa umræðu vegna þess að það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig við ætlum að halda utan um mál til að ekki tapist öll yfirsýn.

Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort rökin fyrir því að þetta mál er í efnahags- og viðskiptanefnd séu þau að þetta varði á einhvern hátt skuldavanda heimilanna. Ég var í gömlu félagsmálanefndinni sem fjallaði um það stóra verkefni. Umfjöllun um það virtist vera í öllum nefndum. Síðan tók einhver ákvörðun um að efnahags- og viðskiptanefnd skyldi hafa forustu um það verkefni. En ef nefndin ætlar að hafa forustu um það verkefni, af hverju er hún þá ekki búin að afgreiða málin sem eru í nefndinni og varða þetta verkefni?

Það þarf að endurskoða þetta í grunninn. Ég mun beita mér fyrir því að forsætisnefnd taki þetta til mikillar endurskoðunar og reyni að koma málum í þann farveg að við áttum okkur á því hvar þau eru stödd og að þau séu þá þar sem menn geta einbeitt sér að þeim, t.d. réttarfarsatriðum í allsherjarnefnd.