Nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 21:45:23 (13967)


140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[21:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Segja má að það sé réttur út af fyrir sig að mega óska eftir gjafsókn en helst vildi maður að hægt væri þá að fylgja þeim óskum eftir. Ég vara við því að við séum að vekja vonir fólks án þess að veruleikinn fylgi á eftir og þá er ég aftur að tala um fjárveitingar til þessa málaflokks vegna þess að við erum ekki að horfa til stóraukins fjárstreymis þangað nema einhver hugarfarsbreyting verði í þinginu sem fer með fjárveitingavaldið. Ég er einfaldlega að segja að við eigum ekki að vekja vonir fólks nema við fylgjum því eftir og ég hefði viljað að við byrjuðum á því að smíða regluverkið og átta okkur á því hvernig við ætlum að standa að þeim málum áður en við breytum lögunum að þessu leyti.