Veiðigjöld

Þriðjudaginn 19. júní 2012, kl. 20:22:27 (14127)


140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um veiðigjöld frá minni hluta atvinnuveganefndar. Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og Illugi Gunnarsson.

Þrátt fyrir að frumvarp um veiðigjöld hafi tekið umtalsverðum breytingum og dregið hafi verið úr fyrirhugaðri skattheimtu frá því að það var fyrst lagt fram í lok mars er það enn algerlega óviðunandi að mati minni hlutans. Á meðan nefndin hefur haft málið til umfjöllunar hefur ítrekað komið fram að afleiðingar þess verði slæmar fyrir þá sem við eiga að búa. Það liggur fyrir að lagasetningin mun veikja sjávarútveginn, stuðla að verri lífskjörum þess fólks sem í atvinnugreininni starfar, fjárfestingar munu dragast saman, tekjur sveitarfélaga munu lækka, samþjöppun í sjávarútvegi mun aukast, þrýstingur verður á lækkun gengisins og áhrifin verða neikvæð fyrir allan almenning í landinu. Þetta er því ekki lagasetning í þágu almannahags eins og haldið hefur verið fram heldur hið gagnstæða, lagasetning gegn almannahagsmunum.

Minni hlutinn vekur athygli á því að þegar frumvarpið kom fyrst fram var því almennt illa tekið. Fjölmargir tjáðu sig um málið. Útgerðarmenn, fiskverkendur, launþegar, sveitarfélög, fræðimenn, lögmenn, endurskoðendur og fjölmargir aðrir sendu frá sér vandaðar og vel ígrundaðar athugasemdir sem bárust atvinnuveganefnd við hefðbundna meðferð málsins. Um sjö tugir gesta komu á fund nefndarinnar og niðurstaða þeirra var undantekningarlaust hin sama, að áhrif frumvarpsins yrðu mjög neikvæð og afleit þegar þau yrðu skoðuð í samhengi við frumvarp til nýrra fiskveiðistjórnarlaga sem verður sem betur fer ekki afgreitt á þessu þingi. Áhrif þess munu því ekki koma fram á þessu kjörtímabili.

Veiðigjöld eru í raun rangnefni. Um er að ræða hreina skattheimtu þar sem grundvöllurinn er tekjur útgerða jafnt sem fiskvinnslu. Greiðslan er hins vegar innheimt af útgerðunum. Minni hlutinn telur því nærtækast að nefna þetta fyrirkomulag sjávarútvegsskatt. Yfirlýstur tilgangur er sá að heimta skatt af svokallaðri rentu í sjávarútvegi við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Ekkert er þó fjær sanni. Það liggur fyrir að undirstöður og forsendur gjaldtökunnar eru meingallaðar og sérfræðingar sem hafa tjáð sig um málið við atvinnuveganefnd hafa allir staðfest að aðferð frumvarpsins sé alls ekki í samræmi við skattlagningu á auðlindarentu sem þekkist í heiminum. Raunar er skattheimta af þessu tagi á sjávarútveg óþekkt í veröldinni. Hér er því farið af stað með tilraunastarfsemi við skattlagningu á undirstöðuatvinnugreininni án nokkurrar fræðilegrar undirstöðu. Minni hlutinn vekur einnig athygli á því að komið hefur í ljós við vinnslu málsins að frumvarpið er fullt af grundvallarmistökum og reikniskekkjum.

Minni hlutinn leggur áherslu á að þetta er grafalvarlegt mál. Svo virðist sem farið sé í stórfellda skattlagningu án þess að hugað sé að afleiðingum jafnvel þó að í hlut eigi sú atvinnugrein sem jafnan hefur verið nefnd undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og stjórnvöld segja að muni gegna lykilhlutverki í efnahagslífi okkar á komandi árum.

Í breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar hefur í raun verið fallist á að frumvarpið sé algjörlega vanbúið. Samkvæmt tillögum meiri hlutans verður fallið frá þeirri aðferðafræði sem frumvarpið byggðist á varðandi álagningu fyrir næsta fiskveiðiár. Þess í stað verður beitt krónutöluaðferð þar sem skattlagningin er langt úr hófi fram. Framtíðarfyrirkomulag mun hins vegar ráðast af vinnu svokallaðrar veiðigjaldsnefndar sem sett verður á laggirnar samkvæmt frumvarpinu. Engu síður er mælt fyrir um í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar að ófullkominni aðferð verði beitt við skilgreiningu á auðlindarentu og skattlagningu hennar. Öllum er hins vegar ljóst að veiðigjaldsnefndinni verður ætlað að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi og skila tillögum að breytingum til ráðherra sem leggur þær fyrir í formi frumvarps til laga á Alþingi.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að þegar frumvarpið var lagt fram á var frumvarpstextinn svo vanbúinn að sérfræðingar urðu nánast að biðjast vægðar og óska eftir því að losna undan því að reyna að reikna til hlítar niðurstöðurnar af frumvarpstextanum sjálfum. Þeir skoðuðu þess vegna greinargerðina sem fylgdi frumvarpinu og þær forsendur sem þar voru en reiknireglan sem var í frumvarpinu sjálfu var svo gölluð að hún hefði leitt í ljós allt aðra niðurstöðu en gerð var grein fyrir í greinargerð frumvarpsins. Þar munaði hvorki meira né minna en um 100%.

Ef við skoðum greinargerðina og þær tölur sem þar liggja fyrir er gert ráð fyrir því að veiðigjaldið hefði átt að gefa 24 milljarða kr. miðað við þær forsendur sem lágu fyrir árið 2010 um aflamarkið, um framlegðina og þær grundvallarstærðir sem þarf að hafa í huga til að geta lagt á gjald, miðað við reiknireglu frumvarpsins eins og henni var ætlað að líta út. En ýmislegt hefur breyst frá árinu 2010. Til dæmis hefur komið fram í máli einstakra þingmanna, meðal annars formanns atvinnuveganefndar, að framlegðin á síðasta ári, 2011, hafi verið hærri en á árinu 2010, sem hefði almennt talað átt að leiða til hærri gjaldtöku, og síðan hitt að gert er ráð fyrir því miðað við tillögu Hafrannsóknastofnunar að heildaraflamarkið á næsta ári verði mun meira en það var á árinu 2010. Við getum sagt sem svo að ef við horfum á tölurnar sem þarna eru reiddar fram hefði verið eðlilegast að miða við mun hærri tölu sem veiðigjaldið hefði gefið miðað við forsendurnar sem er að finna í greinargerðinni. Þess vegna skiptir máli sú lækkun sem búið er að kalla fram eftir miklar umræður á þinginu og greinargerðir sérfræðinga. Lækkunin sem um er að ræða er að minnsta kosti 50% lækkun frá áformunum sem kynnt voru með frumvarpinu eins og það var lagt fram í upphafi.

Þrátt fyrir þessar breytingar, sem eru sannarlega til bóta þó að þær séu alls ekki nægjanlegar og þó að gjaldið verði eftir sem áður allt of hátt, vil ég vekja athygli á öðru. Innheimta þessa skatts verður fyrirsjáanlega mjög þungbær fyrir mörg fyrirtæki. Skatturinn er innheimtur fyrir fram áður en tekna er aflað af veiðunum og gert er ráð fyrir veiðileyfasviptingu verði gjaldið ekki reitt fram innan mánaðar. Minni hlutinn telur að hér séu á ferðinni mjög harkalegar aðgerðir, ekki síst í ljósi þess að skatturinn er tryggður með lögveði í skipunum, sem er óvanalegt þegar um er að ræða skatta. Fyrirframgreiðslan mun því valda miklum vanda í fjárstreymi innan margra fyrirtækja og alveg sérstaklega hjá þeim minni og þeim sem nýlega hafa haslað sér völl í útgerð. Það er því augljóst mál að gjaldtakan mun leggjast þyngst á þá sem lenda í lausafjárerfiðleikum í kringum gjalddagana á þessum skatti. Það er að vísu til bóta sem fram kemur í breytingartillögu meiri hlutans, að fjölga gjalddögunum upp í fjóra og lengja aðeins í greiðslufrestinum, en engu að síður er alveg ljóst mál að það mun valda erfiðleikum í fjárstreymi fyrirtækjanna á meðan það fyrirkomulag er haft að menn borga fyrir fram vegna veiða sem ekki hafa enn átt sér stað. Það mun valda þeim lausafjárerfiðleikum.

Að mati minni hlutans horfa flestar þær breytingar til bóta sem meiri hlutinn hefur kynnt á frumvarpinu, þ.e. breytingar sem eru til lækkunar á skattinum. Eigi að síður er gjaldið allt of hátt. Það verður mörgum útgerðum ofviða og veldur mikilli óvissu í sjávarbyggðunum. Þá liggur fyrir að grunnur þessa útreiknings er rangur og útkoman verður í samræmi við það.

Það er forkastanlegt að mati minni hlutans að ekki skuli hafa verið gert vandað mat á áhrifum frumvarpsins með breyttu gjaldi á fyrirtæki og sjávarbyggðirnar eða á þjóðfélagið í heild. Ætti það þó að vera sjálfsagður hlutur þegar unnið er að slíkum grundvallarbreytingum á rekstrarskilyrðum heillar atvinnugreinar.

Ég vil vekja athygli á því að í nefndaráliti okkar í minni hlutanum er fylgiskjal sem er yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afgreiðslu og meðferð sjávarútvegsfrumvarpa og sömuleiðis er þar fylgiskjal með yfirlýsingu um afgreiðslumeðferð sjávarútvegsfrumvarpa sem er lýsing á helstu atriðum sem rædd voru á fundum trúnaðarmanna stjórnmálaflokkanna í byrjun júní og áframhaldandi vinna á að byggjast á.

Virðulegi forseti. Með þessum orðum fylgi ég úr hlaði nefndaráliti okkar í minni hluta atvinnuveganefndar og ítreka að þetta frumvarp er vanbúið þrátt fyrir breytingar. Ýmsum álitaefnum er vísað til veiðigjaldsnefndar, í raun stórum pólitískum álitaefnum. Með því að vísa slíkum málum þangað lýsir ríkisstjórnin því yfir að hún hafi gert mistök. Þarna viðurkennir hún í rauninni að grundvöllurinn hafi verið ranglega fundinn og reikniaðferðirnar hafi verið rangar og þess vegna hafi verið nauðsynlegt að búa til þann farveg sem veiðigjaldsnefndin er. Það er í sjálfu sér þakkarvert að það skuli þó gert með þeim hætti að vísa málunum í nefnd sérfræðinga en auðvitað hefði átt að vinna þau áður en frumvarpið var lagt fram þannig að þegar frumvarpið kæmi fram væri það fullbúið og boðlegt til þinglegrar afgreiðslu.