Fjárlög 2012

Þriðjudaginn 04. október 2011, kl. 14:52:40 (76)


140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[14:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð orð og sanngjarna umfjöllun um þetta mál og það viðfangsefni sem við er að glíma. Mig greinir kannski fyrst og fremst á við hann um einn hlut og það eru reyndar ekki ný orðaskipti. Skuldaaukning hins opinbera á Íslandi, bæði ríkis og sveitarfélaga, er að stöðvast og endar með því að staðnæmast og byrja síðan að lækka frá miklu lægra hlutfallsstigi en við höfðum áður reiknað með. Eins og réttilega kom fram í máli hv. þingmanns eru til dæmis lántökur umfram afborganir ekki áætlaðar nema 11 milljarðar á næsta ári, það eru ekki orðnar stórar fjárhæðir. Í ljósi stöðu þjóðarbúsins almennt og til dæmis þeirrar staðreyndar að greining gerir ráð fyrir því að þegar uppgjöri gömlu bankanna verður lokið verði bæði skuldir hins opinbera og heildarstaða þjóðarbúsins út á við mun betri en var þangað til fyrir svona 20 árum.

Að við höfum einhverja kröfu á að fara í eftirgjöf á skuldum finnst mér ekki umræða sem við eigum að hafa uppi. Hvernig yrði því tekið ef við reyndum allt í einu að fá eftirgjöf á skuldum, ríkt og þróað land sem við erum þrátt fyrir þá erfiðleika sem við höfum gengið í gegnum? Og við hverja ætlum við að semja? Þrír fjórðu hlutar skulda ríkisins liggja innan lands. Ættum við að ætlast til þess að lífeyrissjóðir og aðrir aðilar sem hafa keypt skuldabréf gæfu eftir skuldir til ríkisins þegar menn sjá að ríkið muni ráða vel við að greiða þessar skuldir? Ég held að það séu hvorki siðferðilegar né efnahagslegar forsendur til að reisa slíkar kröfur.

Hefðum við misst þessi skuldahlutföll upp í 130–140% viðurkenni ég að staðan hefði verið orðin erfið, (Forseti hringir.) samanber þá umræðu sem er nú til dæmis í Grikklandi.