Fjárlög 2012

Þriðjudaginn 04. október 2011, kl. 15:29:38 (85)


140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[15:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða í 1. umr. fjárlagafrumvarp til fjárlaga árið 2012. Ég ætla svo sem ekki í fyrri ræðu minni að staldra lengi við einstök atriði sem ég vil fjalla um, hvort sem það er niðurskurður eða skattahækkanir, ég geri það frekar í seinni ræðu minni.

Hins vegar vil ég aðeins gera að umtalsefni það sem ég tel að við getum gert. Ég tel að ekki séu miklar deilur um það innan hv. fjárlaganefndar, og ekki innan þingsins heldur, hvernig við getum tekið enn frekari skref til framfara við gerð fjárlaga og eftirlits með fjárlögum.

Ég vil byrja á að óska nýkjörnum formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, til hamingju með embættið og vænti þess að eiga við hana gott samstarf eins og við forvera hennar, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, sem stýrði nefndinni af mikilli röggsemi og sanngirni sem gerði það að verkum að sá starfsandi sem var þar var mjög góður.

Ég tel að við þurfum að taka eitt atriði til umræðu og væri mjög gott að fá viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra við því í þessari umræðu. Mín skoðun er sú og hefur verið lengi, og það kemur reyndar fram í skýrslu sem við í hv. fjárlaganefnd skiluðum sameiginlega til þingsins sem á eftir að ræða hér, þ.e. skýrslu um ríkisreikning, að allar tekjur eigi að fara í ríkissjóð hvort sem það eru sértekjur eða markaðar tekjur hjá hvaða stofnun sem er og í raun og veru séu allar stofnanir ríkisins á fjárlögum eins og rekstur þeirra á að vera hverju sinni. Þetta tel ég vera mikið sanngirnismál því að við vitum að margar stofnanir hafa ekki sértekjur, nokkrar hafa sértekjur og það miklar. Við vitum líka að þegar sumar stofnanir afla sér tekna kostar það ákveðin útgjöld. Ég get nefnt eitt til að undirstrika það sem ég er að segja að á árinu 2008 og yfir á árið 2009 jók ein stofnun útgjöld sín um 15,4%. Það var vegna þess að viðkomandi stofnun hafði sértekjur innan úr einu ráðuneytinu sem stofnunin starfar undir. Mér finnst þetta ekki vera sanngjarnt. Ég tel að hv. þingmenn verði að vera betur upplýstir um það þegar verið er að samþykkja fjárlög hverju sinni, hvert umfang viðkomandi stofnunar á að vera, því að það kemur ekki í ljós fyrr en í ríkisreikningi hver hin endanlega staða er. Við erum til að mynda núna ekki klár að fara yfir ríkisreikning 2009 þar sem slíkar upplýsingar koma fram, kannski tveimur eða tveimur og hálfu ári eftir að fjárlagaárinu lýkur. Þess vegna hef ég mjög sterkar skoðanir á því að við eigum að hafa þetta svona og væri það mjög æskilegt að mínu viti, þar sem a.m.k. hv. fjárlaganefnd var sammála um að gera þetta með þessum hætti, að taka allar sértekjur og markaðar tekjur inn í ríkissjóð.

Mig langar að koma aðeins inn á eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Það kemur líka fram í skýrslunni sem ég nefndi áðan, skýrslu fjárlaganefndar um ríkisreikning 2009. Til að geta sinnt eftirlitshlutverki okkar þurfa þær upplýsingar sem við erum með á hverjum tíma að vera mun nákvæmari. Hv. þm. Björn Valur Gíslason fór yfir það í ræðu sinni áðan þar sem hann fór yfir framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2011 og vitnaði þar til hvað hafði gerst í innheimtu gjalda og hver útgjaldaaukningin hafði orðið. Ef maður tekur fyrstu átta mánuði ársins er heildarniðurstaðan um 2,3 milljarðar sem hefur verið umfram í útgjöldum. Það eru tvö ráðuneyti sem skera sig töluvert úr, annars vegar velferðarráðuneytið með um 8 milljarða í mínus og hins vegar fjármálaráðuneytið með 4 milljarða.

Síðan eru önnur ráðuneyti sem vega þetta upp og það eru menntamálaráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið með í kringum 2 milljarða og innanríkisráðuneytið með 1,5 milljarða. Þegar þetta er borið saman við fjárlög 2012 þá er ekki brugðist við því með því að minnka útgjöldin hjá þeim ráðuneytum sem núna eru samkvæmt framkvæmd innan fjárlaganna heldur er brugðist við því með þeim hætti að verið er að auka útgjöld til velferðarráðuneytisins. Ég dreg því þá ályktun, af því að ég hef ekki þau gögn, að í raun og veru sé ekki samræmi á milli þeirra kerfa, þ.e. áætlunin í framkvæmd standist ekki við þá niðurstöðu sem við erum að véla um. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við komum þessu til betri vegar. Gerð er tillaga um að skila á þriggja mánaða fresti skýrslu til fjárlaganefndar, bæði frá fjármálaráðuneytinu og eins frá Ríkisendurskoðun til þess einmitt að þingið og fjárlaganefnd sinni því eftirlitshlutverki sem henni er ætlað að gera. Ég tel að með þeirri skýrslu sem fjárlaganefnd skilaði núna um skýrslu Ríkisendurskoðunar sé í raun og veru fyrsta skrefið í þá átt að menn breyti vinnubrögðum vegna þess að þetta hefur ekki verið gert áður. Það er mikill vilji í fjárlaganefnd og ég tel hann vera líka í þinginu til að breyta vinnubrögðunum og hafa þau agaðri. Það er markmiðið.

Síðan getum við rætt endalaust um niðurskurð. Mér finnst að við þurfum að skoða það mjög vel og ég ætlast til að það verði gert hjá hv. fjárlaganefnd þegar verið er að ræða niðurskurð hjá einstaka stofnunum því að það er oft spurning um hver niðurstaðan verður. Mér er mjög minnisstætt í fyrra þegar lagður var til niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þá lögðu menn fram niðurskurð til að ná sparnaði en síðan tóku sig saman tveir einstaklingar, tveir Ísfirðingar, og krufðu það til mergjar hvað það mundi í raun þýða og þá kom í ljós að þetta voru að stórum hluta tilfærslur á fjármunum. Við þurfum að breyta slíkum vinnubrögðum og hafa þau mun vandaðri og agaðri í allri fjármálastjórn ríkisins svo að við séum ekki að færa til útgjöld og tekjur, þ.e. að ef við spörum á einum stað séum við ekki að fara með það sem útgjöld yfir á annan stað. Skýrasta dæmið um þetta, sem ég held að hv. þingmenn verði að hugsa mjög vandlega, er að þegar við samþykktum fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011 var okkur gerð grein fyrir því á fundum hv. fjárlaganefndar af forustumönnum og framkvæmdastjóra Sjúkratrygginga Íslands að sú hagræðingarkrafa sem væri í frumvarpinu mundi ekki geta gengið eftir nema við mundum breyta lögum. Niðurstaðan er sú og það er staðfest núna og verður væntanlega staðfest í fjáraukalögum að þar mun verða mikið bil. Þetta kom fram í nefndarálitum og ég tók það upp í þingræðum að í rauninni er verið að samþykkja fjárlög þó svo að hv. þingmenn viti að það gangi ekki eftir sem til er ætlast. Þetta eru vinnubrögð sem ég tel að við þurfum að breyta.

En fyrst og fremst tel ég að við þurfum að bæta vinnubrögðin í fjárlagagerðinni, í eftirliti með fjárlögunum. Ég tel að mikill samhljómur sé um það í þinginu að gera það á þann veg að við höfum markvissar upplýsingar. Við þurfum að breyta því að ríkisreikningurinn sé í raun ekki fjáraukalög. Hann hefur virkað þannig, hvernig farið er með bundið fé hjá stofnunum. Það fer ekki alltaf eftir sömu reglum og það eru hlutir sem við verðum að betrumbæta til að ná betri tökum á þessu, sérstaklega við þær aðstæður sem við búum við núna.

Einnig er mjög mikilvægt að velta fyrir sér spurningunni um réttlætið þegar við tölum um að niðurskurðurinn eigi að vera 1,5% í velferðarmálum, 3% í stjórnsýslu o.s.frv., hvernig það gengur eftir. Erum við að ná þeim sparnaði alls staðar, erum við að ná honum sums staðar? Það er mjög mikilvægt að menn ræði þetta og geri sér grein fyrir því hvernig það muni koma út í heildina og að við séum ekki að færa til á milli liða þannig að niðurstaðan verði oft og tíðum sú sama.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess og þykist vita að í meðförum hv. fjárlaganefndar munu menn leggjast mjög vandlega yfir þetta og reyni að greina hvað þetta þýðir í raun og veru. Mér þætti vænt um ef hæstv. fjármálaráðherra kæmi í andsvar við mig í sambandi við það sem ég beindi til hans í upphafi máls míns, um að taka bæði markaðar tekjur og sértekjur þannig að allir sætu í raun við sama borð, og þá væri Alþingi, að mínu viti, að samþykkja fjárlög með ákveðnum fjárlagaramma fyrir hverja einustu stofnun, hvort heldur hún hefði sértekjur eða markaðar tekjur. Því að það er ekki sanngjarnt að á meðan verið er að skera niður á sjúkrastofnunum og í erfiðum málaflokkum fái aðrar stofnanir að vaxa bara í ljósi þess að þær hafa sértekjur eða markaðar tekjur.