Fjárlög 2012

Þriðjudaginn 04. október 2011, kl. 17:29:40 (124)


140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[17:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru til gleðileg og ánægjuleg dæmi um lönd sem hefur tekist að virkja auðlindir sínar. Noregur er ágætt dæmi. Við Íslendingar höfum náð alveg gríðarlegum árangri í að byggja upp efnahagslíf okkar á grundvelli auðlinda. Ég ítreka það að ástæða er til að ætla að við getum þegar fram er horft, búið hér við hagkerfi sem skilar þjóðinni einhvers staðar á bilinu 3–4% hagvexti á ári. Ég held að það sé hvorki draumsýn né óábyrgur málflutningur, heldur þvert á móti raunsætt mat á þeim möguleikum og tækifærum sem þjóðin býr að. Spurningin er þessi: Hvaða fyrirkomulag efnahagsmálanna nýtir þessi tækifæri best?

Það var áhugavert sem hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi, að ýmis lönd sem hafa mikil tækifæri hafa ekki getað nýtt þau. Sumpart vegna landfræðilegra aðstæðna, sumpart vegna stjórnkerfisins. Það er ekki sjálfgefið að löndum vegni vel bara af því þau búa að auðlindum. Menn geta líka náð miklum árangri án þess að hafa aðgang að auðlindum. Þess vegna skiptir öllu máli, enn og aftur, í umræðum um okkar eigin meginauðlind, sjávarútveginn, að sátt ríki um þá atvinnugrein. Og enn á ný kalla ég eftir því við stjórnarliða að menn fari aftur á þann punkt þar sem búið var að ná sátt um þessa mikilvægu atvinnugrein og vinni sig þaðan.

Síðan er hitt að stærsta og mikilvægasta auðlindin er auðvitað fólkið sjálft. Menntunarstigið og viljinn til þess að vinna. Þar höfum við Íslendingar fjárfest á undanförnum árum og áratug að minnsta kosti mjög myndarlega. Við höfum aukið framlög okkar þó að enn megi gera betur. Þegar þetta er samanvirkt, vel menntuð þjóð, vinnufús og miklar auðlindir sem margar hverjar eru endurnýjanlegar og geta þess vegna verið grunnur til langs tíma, er hægt, frú forseti, að ætlast til þess að við stöndum ekki frammi fyrir hagvexti upp á 1,6%. Jafnvel þó að ýmsar viðsjár séu uppi erlendis á að vera (Forseti hringir.) hægt að gera þá kröfu hér að við náum meiri árangri og við horfum á betri og myndarlegri hagvöxt.