Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 14:41:04 (400)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég hafna því að hér hafi verið rekin tilviljanakennd stefna, hér hefur verið pólitísk framtíðarsýn í þessum málum í gegnum árin og áratugina og þess vegna erum við svo virk á þessum vettvangi sem raun ber vitni.

Iðnaðarráðherra vísaði til vinnu við rammaáætlun. Hún vísar til þess að það þurfi að skoða línulagnir o.s.frv. og það þurfi að skoða hlutina miklu betur. Hér er verið að slá málum á frest og það er svo sem ekki skrýtið þegar það liggur fyrir að í sérstaklega öðrum stjórnarflokknum er andstaða við þá ákvörðun að virkja í neðri hluta Þjórsár sem er svo augljós virkjunarkostur að um þann virkjunarkost þarf ekki að deila, en annar stjórnarflokkurinn eða þingmenn þar hafa sett líf ríkisstjórnarinnar að veði og því komumst við ekkert áfram.

Hver hefur talað um álver í þessari umræðu hérna? Ekki gerði ég það. Það eru þeir sem eru að reyna að fara í kringum þetta og sverta þessa umræðu með því að tala alltaf um einhverja stóriðju og álver í einhverju samhengi.

Það er alveg ljóst að sú stefna sem Landsvirkjun er að leggja hér á borðið fyrir okkur byggir á þeirri vinnu, allri þeirri stefnu sem hefur verið fylgt undanfarna áratugi. Það segja þeir sjálfir forustumenn Landsvirkjunar í dag. Ástæðan fyrir því að hægt er að horfa núna víðar í sölu á raforkunni er sá infrastrúktúr og þeir innviðir sem hafa verið byggðir upp og sú stefna sem fylgt hefur verið. Orkuframleiðsla er einhver arðsamasti atvinnuvegur sem við getum farið í og Kárahnjúkavirkjun sem er sennilega eitthvert besta dæmið um það sem við höfum (Gripið fram í: Rétt.) mun prenta hér peningaseðla fyrir okkur, fyrir þetta samfélag, þegar hún verður orðin greidd upp eftir 10 ár.

Skoðun mín er alveg heiðarleg í þessu. Hún er sú að ég vil nýta þessar orkuauðlindir til þess að efla íslenskt samfélag en það er fólk inni í þessum sal og í samfélaginu sem vill ekki virkja. Það á bara að koma fram af heiðarleika eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur gert og sagst bara vera á móti þessu og hún muni fella ríkisstjórnina ef um það væri að ræða. (Forseti hringir.) Aðstæður eru fyrir hendi. Kaupendur orkunnar eru fyrir hendi eftir því sem okkur er sagt. Orkan er fyrir hendi. Það vantar ekkert annað en (Forseti hringir.) kjark hjá þessari ríkisstjórn og þeim þingmönnum (Forseti hringir.) sem hana styðja til að stíga skrefið til þess að koma íslensku samfélagi áfram.