Tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands

Þriðjudaginn 11. október 2011, kl. 21:18:58 (483)


140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[21:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er rétt hjá hv. þingmanni. Ég hafði ekki séð þetta alveg svona. Þetta sýnir einmitt gildi umræðunnar. Það má vel vera að það sé ágætt að hafa einhverja nefnd þingmanna eða sem er kosin af þingmönnum, sérfræðinga, sem getur farið yfir frumvörp. Það er oft þannig þegar við ræðum frumvörp að þar sem koma fram spurningar um hvort eitthvað standist stjórnarskrá og það væri ágætt að geta vísað því með tiltölulega formlitlum hætti til nefndar sem tæki hratt og vel afstöðu til þess. Það má vel vera að þetta sé rétt. Hins vegar vil ég að þegar menn telja að lög stangist á við stjórnarskrá sé þetta hlutverk Hæstaréttar og það verði sett inn í hina nýju stjórnarskrá sem í fyrsta skipti fjallar um Hæstarétt yfirleitt, því að í núgildandi stjórnarskrá er ekki orð um Hæstarétt, merkilegt nokk.