Efling græna hagkerfisins á Íslandi

Þriðjudaginn 18. október 2011, kl. 14:30:22 (721)


140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

efling græna hagkerfisins á Íslandi.

7. mál
[14:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála því að við eigum að forðast einhæfni. Við vorum með mjög einhæfar útflutningsgreinar þegar sjávarútvegurinn var með 70% af útflutningi þannig að nú má segja að við séum komin kannski fulllangt í því að sérhæfa okkur í álframleiðslu.

Hv. þingmaður nefndi hins vegar að álið skapaði koldíoxíðmengun. Það finnst mér vera rangt vegna þess að álið skapar ekki koldíoxíðmengun við framleiðslu þess á Íslandi vegna þess að raforkan til að framleiða eitt kíló af áli er nánast mengunarlaus. En í Kína og í Sádi-Arabíu og annars staðar þar sem verið er að vinna ál — og mér skilst að Alcoa ætli að huga að framleiðslu í Sádi-Arabíu — þar er brennt gas til að framleiða rafmagnið. Það yrði því mjög neikvætt fyrir mannkynið ef álver yrði flutt frá Bakka til Sádi-Arabíu og þar framleidd mörg kíló af áli sem kosta margfalda mengun fyrir mannkynið.

Svo er spurningin um óþrjótandi orku. Nú er það þannig að fallvötnin renna til sjávar og sú orka kemur aldrei aftur, hún verður aldrei nýtt aftur. Við erum ekki búin að virkja nema um helming af vatnsafli á Íslandi sem talið er skynsamlegt að virkja. Þess vegna finnst mér að okkur liggi á að virkja sem allra mest og þegar það fer saman við hagsmuni mannkynsins varðandi mengun — og þar með okkar — ættum við að virkja sem allra, allra mest.

Varðandi verð á orku sem menn hafa verið að tala um þá er hún mjög háð vöxtum, hvaða vextir fást til framkvæmdarinnar. Það má eiginlega segja að verð orkunnar, sérstaklega í vatnsaflsvirkjunum, sé nánast alfarið háð þeim vöxtum sem fást á lánin og því miður eru Íslendingar að borga mjög háa vexti núna vegna þess hve efnahagsástandið er slæmt.