Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka

Fimmtudaginn 20. október 2011, kl. 13:50:49 (880)


140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

Staða mála eftir ákvörðun Alcoa að hætta byggingu álvers á Bakka.

[13:50]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu er rétt og sanngjarnt að tala um þá valkosti sem menn sjá fyrir sér í Þingeyjarsýslum. Það vill svo vel til að hæstv. fjármálaráðherra var í viðtali við staðarblaðið Skarp 9. febrúar 2009. Þá svarar hann ágætlega spurningunni: Hvað er eitthvað annað? Hann spyr sjálfan sig: Álver eða þetta fyrirlitlega eitthvað annað? Hvað er þetta annað? Eitthvað annað, svarar hæstv. ráðherra á þennan veg:

Eitthvað annað er Heilbrigðisstofnun Þingeyinga — sem hann ætlaði að skera niður um 40% á síðasta ári og ætlar að skera niður um 10% til viðbótar á þessu ári.

Eitthvað annað er Framhaldsskólinn á Húsavík — sem var skorinn niður um 10% á síðasta ári.

Eitthvað annað er sýslumaðurinn og lögreglan — þar sem hefur verið fækkað og umdæmið stækkað þannig að lögreglan á Húsavík sem telur held ég tvo menn sér núna um svæði sem jafngildir Ísrael, Palestínu og þó nokkurri sneið af Egyptalandi.

Þetta eru svörin sem menn fá við spurningunni um eitthvað annað. Það er algjörlega ljóst að opinberu störfin eru ekki það sem þetta fólk mun lifa á þarna. Opinberu störfin eru þjónusta við borgarana og það verða að vera störf á einkamarkaði til að afla teknanna.