Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 20. október 2011, kl. 14:49:37 (900)


140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

stjórnarskipunarlög.

43. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Í 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi frú forseta:

„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“

Þetta þýðir að sérhver breyting á stjórnarskránni fer aldrei í atkvæðagreiðslu hjá þjóðinni, því um leið og Alþingi er búið að samþykkja svona breytingu þarf að rjúfa þing og boða til kosninga. Það eru bara venjulegar kosningar, kosið er Alþingi Íslendinga sem á að fara með stjórn landsins næstu fjögur árin. Síðan kemur nýtt þing saman og ef það samþykkir breytinguna er hún orðin stjórnarskipunarlög. Það þýðir, eins og þetta ákvæði hefur verið orðað, að þjóðin hefur frá upphafi aldrei greitt atkvæði um stjórnarskrána sem slíka. Það þykir mér mjög miður.

Nú eru menn að breyta stjórnarskránni. Fram hefur komið tillaga eða hugmynd, ég vil kalla það hugmynd, um breytingu á stjórnarskrá sem er til umfjöllunar í einni hv. nefnd þingsins. Ef menn ætla að samþykkja þá breytingu fer hún einmitt í þetta ferli, það þarf að rjúfa þing um leið og er búið að samþykkja breytinguna, síðan verða almennar kosningar til Alþingis og þegar nýtt þing kemur saman getur það greitt atkvæði um breytinguna. Ef það samþykkir hana er hún orðin að stjórnarskrá. En þjóðin, frú forseti, almennir kjósendur, komu aldrei að málinu, þeir kusu aldrei um þessa sérstöku breytingu því þeir voru bara að kjósa nýtt þing sem átti að stjórna landinu næstu fjögur ár. Þetta finnst mér mjög miður.

Þess vegna legg ég fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Það hljóðar þannig, með leyfi frú forseta:

„1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo: Greiði minnst 2/3 þingmanna á Alþingi atkvæði með tillögu um breytingu á stjórnarskrá þessari skal leggja tillöguna innan tveggja mánaða undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri kosningu. Greiði minnst 6/10 allra kosningarbærra manna breytingunni atkvæði sitt er hún gild stjórnarskipunarlög.“

Þetta eru mjög háir þröskuldar. Ég ætla rétt aðeins að fara í gegnum það af hverju hér er sagt 2/3 þingmanna og 60% kosningabærra manna, það er ekki bara átt við þá sem taka þátt heldur þurfa a.m.k. 60% kjósenda að ganga að kjörborðinu og greiða atkvæði og 60% af öllum kjósendum þurfa að samþykkja. Það er vegna þess að stjórnarskrá á að vera samkomulagsmál. Það eiga ekki að vera deilur um stjórnarskrá. Hún á að vera eitthvað sem flest allir eða nánast allir eru sáttir við og sammála.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem fær þetta til umfjöllunar getur að sjálfsögðu breytt þessum mörkum, en það er minn vilji og flutningsmanna að þröskuldarnir séu mjög háir fyrir því að samþykkja stjórnarskrá og þá með þessum rökum.

Ef þessi breyting yrði samþykkt ætti það náttúrlega að gerast rétt fyrir kosningar, vegna þess að um leið og er búið að samþykkja hana þarf að rjúfa þing. Þannig að ef kosningar eru fram undan eða það á að fara að rjúfa þing, þarf nefndin að koma þessu út til afgreiðslu og þingið að samþykkja þetta. Þess vegna er frumvarpið lagt svona snemma fram, því það gæti gerst að þingið væri rofið fyrr og þá þarf þetta að vera tilbúið. Um leið og svona tillaga er samþykkt á Alþingi þarf að rjúfa þing. Þá er boðað til almennra kosninga eins og ég las áðan í 79. gr. núgildandi stjórnarskrár. Svo kemur nýtt þing saman og menn kjósa það eins og venjulega, það er kosið til Alþingis sem fer með stjórn landsins næstu fjögur árin, en um leið er búið að ákveða þetta ákvæði. Ef nýtt þing samþykkir það er það orðið stjórnskipun, samkvæmt stjórnarskrá. Þá gæti þetta nýja þing samþykkt þá tillögu um stjórnarskrá sem menn eru áður sáttir við, lagt hana fram sem frumvarp, samþykkt það og sent til þjóðarinnar til atkvæðagreiðslu. Þá fer fram kosning innan tveggja mánaða. Þetta seinkar ferlinu frá því sem nú er, nú mundi nýja þingið samþykkja nýja stjórnarskrá án þess að þjóðin kæmi nokkuð nálægt því, en ef þetta yrði samþykkti mundi tillagan bíða og vera svo lögð fram á nýju þingi, samþykkt og send til þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin mundi greiða atkvæði um hana innan tveggja mánaða. Ferlinu seinkar því um tvo, þrjá mánuði frá því sem nú er, að óbreyttu.

En það er einn mjög veigamikill munur á. Ef þessi tillaga yrði samþykkt og menn ætluðu sér að breyta stjórnarskránni, mundi þjóðin greiða atkvæði um sína eigin stjórnarskrá, hún gengi að kjörborðinu og greiddi skuldbindandi, bindandi, atkvæði um þá nýju stjórnarskrá sem hún ætlar sér að setja sér. Mér finnst þess virði að bíða í tvo, þrjá mánuði eftir því.

Ég legg því til að menn samþykki þetta frumvarp til að koma þessu ferli í gang. Afleiðingin væri þá sú að ef menn vilja samþykkja þessar nýju hugmyndir um nýja stjórnarskrá, verða þær lagðar fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu og ef mikill hljómgrunnur er með þeirri stjórnarskrá, verður hún væntanlega samþykkt. Þá er hún orðin bindandi stjórnarskrá og Alþingi kemur ekkert frekar að því.

Mér finnst þetta mjög nauðsynlegt til að laga það ferli sem er á breytingum á stjórnarskrá og mér þætti mjög miður ef þjóðin setti sér nýja stjórnarskrá án þess að hafa nokkurn tímann greitt um hana atkvæði.