Umræður um störf þingsins 1. nóvember

Þriðjudaginn 01. nóvember 2011, kl. 13:44:50 (959)


140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Mig langar að eiga samræður við formann allsherjar- og menntamálanefndar vegna nýútkominnar skýrslu og niðurstöðu úr starfshópi Reykjavíkurborgar um námsárangur drengja í skólum. Þar kemur meðal annars fram að fjórði hver 15 ára drengur getur ekki lesið sér til gagns. Ég átti nokkur orðaskipti við hæstv. menntamálaráðherra í síðustu viku um þetta málefni og mér fannst margt gott sem hæstv. ráðherra sagði, m.a. að hún ætlaði að fylgja þessu eftir með frekari könnunum.

Gott og vel, ég held að núna þurfum við að horfast í augu við vandamálið. Það þarf aðgerðir núna strax, það er mitt mat. Við þurfum að skoða það að breyta kennslu- og námsaðferðum. Við þurfum að endurskoða enn betur þær kröfur sem við gerum til kennaramenntunar og við þurfum að fara í aðgerðir sem eru þess eðlis að gripið verði strax inn í ferlið, þ.e. að við áttum okkur á því að strax í 2. bekk verði skoðað við hvaða vandamál er að etja og ef þau eru enn til staðar í 4. bekk komi skólakerfið markvisst inn og kenni krökkunum okkar að lesa sér til gagns.

Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt og mér þætti fróðlegt að heyra viðhorf hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, formanns allsherjar- og menntamálanefndar, til þessa mikilvæga máls sem þarf að mínu mati að grípa strax inn í.

Mig langar í lok máls míns að ítreka að þó að Vestmannaeyjar tilheyri Suðurkjördæmi ætla ég samt að skipta mér af því hvernig samgöngur eru til Eyja. (Gripið fram í: Gott.) Mér finnst það skipta máli fyrir landsmenn alla að samgöngur til Eyja séu góðar, og virkar alla daga ársins. (Gripið fram í.) Þess vegna styð ég þær kröfur og óskir sem Eyjamenn hafa sett fram í þessu efni. Þetta er ekki bara málefni þeirra 4.500 manna sem búa úti í Eyjum. Við viljum eiga góð samskipti þangað alveg eins og þau vilja koma upp á land. Þetta eru sjálfsagðar og eðlilegar kröfur nútímans.