Umræður um störf þingsins 1. nóvember

Þriðjudaginn 01. nóvember 2011, kl. 13:56:32 (965)


140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í ályktun sem samþykkt var um heilbrigðiskerfið á landsfundi Vinstri grænna um helgina segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Ljóst má vera að heilbrigðiskerfið er löngu komið að þolmörkum þar sem skorið var niður í málaflokknum undir einkavæðingarstefnu fyrri ára.“

Skömmu síðar segir:

„Frekari niðurskurður í heilbrigðiskerfinu getur ekki orðið án þess að þjónusta við sjúklinga skerðist alvarlega og heilsuspillandi álag á heilbrigðisstarfsfólk aukist. Fundurinn hvetur til þess að aukið svigrúm í ríkisfjármálum verði nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu með því að draga úr niðurskurði og byggja hana upp til frambúðar.“

Um þetta held ég að við séum öll sammála, ég held að við séum öll sammála um að við séum komin að ákveðnum endimörkum í niðurskurði til heilbrigðismála, eða velferðarmála almennt. (Gripið fram í.) Ég hef ekki heyrt nokkurn pólitískan ágreining, í það minnsta ekki hér í þessum sal, um að við séum komin að ákveðnum þolmörkum þar og að lengra verði ekki gengið en nú liggur fyrir í þeim sporum sem við stöndum, að meðtöldu fjárlagafrumvarpinu sem hefur verið lagt fram. Það er alveg skýr stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eins og hún kom fram á landsfundinum og var samþykkt þar. Það er hvorki gengið gegn því sem þar kemur fram né farið fram á það að — (Gripið fram í.) Það kemur ekki fram. Það segir, með leyfi forseta:

„Frekari niðurskurður í heilbrigðiskerfinu getur ekki orðið án þess að þjónusta við sjúklinga skerðist alvarlega … Fundurinn hvetur til þess að aukið svigrúm í ríkisfjármálum verði nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu með því að draga úr niðurskurði og byggja hana upp til frambúðar.“

Það er það sem við munum gera. Ef það myndast aukið svigrúm frá því sem nú er og frá því sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár munum við auðvitað láta velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, njóta þess. Er einhver ágreiningur um það hér í þessum sal? (Gripið fram í: Óbreytt …) Óbreytt fjárlagafrumvarp, að sjálfsögðu. Stuðningur landsfundar er við fjárlagafrumvarpið en við munum auðvitað — og ætlar einhver að vera á móti því? Er hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson að mælast til þess að heilbrigðiskerfi og (Forseti hringir.) velferðarkerfi fái þá ekki að njóta þess (Forseti hringir.) ef aðrir liðir fjárlagafrumvarpsins ganga eftir? (Gripið fram í.)