Umræður um störf þingsins 1. nóvember

Þriðjudaginn 01. nóvember 2011, kl. 14:01:25 (968)


140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Fyrir nokkrum dögum fór fram neyðarfundur Evrópusambandsins um lausn á vanda evrunnar. Það var líklega 17. fundurinn í röðinni og átti að vera sá stærsti og síðasti, fundurinn sem mundi leysa þetta allt saman.

Svo fór að renna upp fyrir mönnum að það væri kannski ekki lausn á skuldavanda að færa skuldirnar til. Rétt þegar menn voru að byrja að átta sig á því bárust þær fregnir frá Grikklandi að Grikkir ætli að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir vilji yfir höfuð fallast á tillögur Evrópusambandsins. Ég sá grein í Wall Street Journal þar sem því er haldið fram að starfsmenn Evrópusambandsins og þingmenn í Brussel séu nú í losti enda eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki vinsælar þar á bæ ekki frekar en hjá hæstv. ríkisstjórn okkar og við sjáum að það er algert hrun á mörkuðum í Evrópu og raunar víðar. Öll þessi vandamál ná út fyrir evrusvæðið. Í dag bárust fregnir af því að Danski bankinn, sá mikli danski útrásarbanki, þurfi að segja upp a.m.k. 2.000 manns og ljóst er að evrukrísan er aftur komin á fullan skrið, ef svo má segja, og menn aftur farnir að tala um að ekki sé víst að evran lifi þessar þrengingar af.

Er ekki að verða tímabært að við förum að ræða þessi mál á Alþingi Íslendinga? Ég hef reyndar verið að bíða eftir því í nokkra mánuði að fá opinn fund í utanríkismálanefnd með hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til slíkrar umræðu en enn verður bið á því. Hins vegar er alveg ljóst að það er hlutverk þingsins að fylgjast með gangi mála í Evrópusambandinu, sérstaklega núna þegar við erum í þessu umsóknarferli. Það var beinlínis samþykkt í þingsályktunartillögunni þegar sótt var um aðild. (Forseti hringir.) Ef við förum ekki að taka á því og ræða þessi mál í þinginu vanrækir það hlutverk sitt.