Íslenskur ríkisborgararéttur

Þriðjudaginn 01. nóvember 2011, kl. 14:22:51 (978)


140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

íslenskur ríkisborgararéttur.

135. mál
[14:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt um grundvallarbreytingar og smávægilegar breytingar, ég held að við hljótum að geta verið sammála um að lagabreytingar rista misdjúpt.

Varðandi heimildir Alþingis sem snúast um undanþágu frá almennri reglu sem að mati hv. þingmanns er að þróast út í almenna reglu í sjálfu sér og hvort ég sé sáttur við þá þróun. Nei, ég er það í sjálfu sér ekki en ég vil líta á allt þetta regluverk heildstætt vegna þess að þar er eitt öðru háð. Það skiptir t.d. máli hvaða vinnulag og hvaða heimildir við setjum í lög hvað varðar Útlendingastofnun og heimildir hennar til að veita fólki leyfi til að dveljast hér á landi. Ef við erum of stíf í þeim efnum vill brenna við og reyndin hefur orðið sú að fólk sem hefur óskað eftir því að fá að dvelja hér í skemmri tíma en fær höfnun leitar eftir ríkisborgararétti án þess að nokkur vilji hafi staðið til þess í reynd að gerast íslenskur ríkisborgari. Ég vek athygli á því að það er þetta stóra mósaíkmunstur sem við þurfum að hafa allt undir þegar við skoðum einstakar breytingar á lögunum. En þetta er áhugaverð umræða og mjög mikilvæg, tel ég, sem á að sjálfsögðu ekkert að ljúka við þetta mál eða umræðu um það sem fyrst og fremst snýr að tæknilegri uppfærslu.