Flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar

Þriðjudaginn 01. nóvember 2011, kl. 16:30:21 (1021)


140. löggjafarþing — 15. fundur,  1. nóv. 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.

19. mál
[16:30]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég harma það hvað ótrúlega margir flækingar fara úr munni hv. þm. Marðar Árnasonar í mörgu sem hann talar um og kemur vel fram í þessari umræðu um Landhelgisgæslu Íslands. Það er svo augljóst að hv. þingmaður hefur lítið verksvit í þessum efnum og enga reynslu. Það er leitt líka, virðulegi forseti, hvernig hv. þm. Mörður Árnason misnotar oft íslensk orð í máli sínu. Reykjanes er ekki útnes. Það er ekki nokkur lifandi leið að færa rök fyrir því í íslenskri tungu. Þetta er þeim mun hörmulegra vegna þess að hv. þingmaður gefur sig oft út fyrir að vera góður íslenskumaður. Það er hann auðvitað en það er ekki nóg að kunna bara að babla á bók og gleyma því sem heitir verksvit og reynsla. Að það varði einhverju máli hvort Reykjavík sé höfuðborg Íslands þegar rætt er um staðsetningu Landhelgisgæslu — það kemur bara málinu ekkert við. Landhelgisgæsla Íslands var reyndar stofnuð upphaflega í Vestmannaeyjum af Vestmannaeyingum sjálfum 1918. Þá keyptu þeir sjálfir skip sem var gefið nafnið Þór, áttu það til 1926 þegar ríkissjóður keypti skipið af Vestmannaeyingum og Landhelgisgæslan var stofnuð.

Þetta snýst ekki um staðsetningu. Þetta snýst um eðlilega dreifingu og skynsamlega nýtingu á mannvirkjum og svigrúm fyrir eðlilega uppbyggingu. Það er á Suðurnesjum.