Grunnskólar

Miðvikudaginn 02. nóvember 2011, kl. 17:56:09 (1108)


140. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2011.

grunnskólar.

156. mál
[17:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst lýsa stuðningi mínum við frumvarpið. Ég held, eins og fram hefur komið hjá flutningsmanni og hv. þingmanni sem hér talaði síðast, að það sé mjög mikilvægt að sveitarfélögin hafi svigrúm í fjárhagsáætlunargerð sinni, þau þurfa á því að halda. Sveitarfélögin vinna fjárhagsáætlanir sínar fyrir næsta ár einmitt núna og mörg hver, og kannski flest, skipta skólaárinu í áætlanagerðinni, þ.e. þau verða að vinna fjárhagsáætlun fyrir sumar og svo fyrir haust til áramóta. Það er mjög mikilvægt að frumvarpið fái góða meðferð en um leið nokkra áherslu í nefndinni, þ.e. að reynt verði að afgreiða málið fyrir jól og helst vel fyrir jól, þannig að sveitarfélögin geti tekið mið af því sem boðið er upp á í fjárhagsáætlunargerðinni ef þau kjósa það.

Það er jafnmikilvægt að það komi skýrt fram, sem kemur reyndar ágætlega fram í greinargerðinni með frumvarpinu, að ekki er verið að fara inn í kjarasamninga og þetta er hugsað sem tímabundin lausn. Það er hins vegar allt önnur umræða sem e.t.v. þarf að taka um kjarasamning opinberra starfsmanna, þar á meðal kennara og fleiri. Það á hins vegar ekki heima hér. Þetta snýr eingöngu að því að veita sveitarfélögunum svigrúm til að bregðast við með enn frekari hætti. Sveitarfélögin hafa að mínu viti sýnt mikið frumkvæði og dugnað í því hvernig þau brugðust við aðstæðum sem sköpuðust hér eftir hrun.

Þess vegna legg ég áherslu á að málið verði afgreitt á þinginu hið allra fyrsta.