Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudaginn 03. nóvember 2011, kl. 11:47:24 (1154)


140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég þakka fyrir það jákvæða, að verið er að lækka tryggingagjaldið. Það hafði reyndar verið hækkað gífurlega mikið áður, maður gleðst náttúrlega yfir því að það skuli vera lækkað. En ég hef líka athugasemdir við að 4% í séreignarsjóð skuli ekki lengur vera frádráttarbært vegna þess að þessi sparnaður kostar heilmikla markaðssetningu hjá þeim sem eru að koma honum á og svona hringl með prósenturnar er mjög slæmt.

Nú gerist það að þeir þurfa að ráðleggja fólki sem þeir ráðlögðu fyrir stuttu að spara 4% að hætta því. Þeir þurfa að ráðleggja fólki og segja: Sparaðu 2% en ekki 4% því að það er galið að spara 4% og borga tvisvar sinnum skatt af þeim tekjum sem þar eru. Það er mjög slæmt að menn skyldu fara þessa leið og sérstaklega að ætla að gera þetta til skamms tíma vegna þess að þetta þýðir að markaðssetningin, það að fá fólk til að spara, (Forseti hringir.) bíður mikinn hnekki.