Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 15:42:03 (1287)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:42]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki langt síðan ég heyrði útvarpsviðtal við samflokksmann hv. þingmanns þar sem viðkomandi sagði að tillögur okkar væru komnar fram, hún hefði að vísu ekki lesið þær en þær væru afskaplega illa rökstuddar. Þessi ræða minnti mig á þá fullyrðingu vegna þess að það er einfaldlega rangt hjá hv. þingmanni að ekkert sé komið inn á stöðu krónunnar. Það eru einar þrjár eða fjórar blaðsíður í þessu tæplega 30 síðna skjali þar sem einmitt er fjallað um peningamálastefnuna og hvað við þurfum að gera til að treysta grundvöll hennar. Í þeim efnum er mjög mikilvægt að við höfum í huga að það er alveg sama hvað við ætlum að gera í framtíðinni, hvort við ætlum að byggja á krónunni með núverandi peningamálastefnu, að þróa nýja peningamálastefnu eða leggja grunn að því að taka upp aðra mynt í framtíðinni. Það er sama leiðin sem liggur að þessu markmiði. Á þetta atriði viljum við benda sérstaklega og það er mjög mikilvægt að menn séu meðvitaðir um að verkefnið er að loka fjárlagagatinu, koma ríkinu í þá stöðu að eiga (Forseti hringir.) vel fyrir útgjöldum, auka útflutning, flytja meira út en við flytjum inn, og þá smám saman munum við komast í stöðu til þess að eiga einhverja valkosti í þessum efnum.