Aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf

Þriðjudaginn 08. nóvember 2011, kl. 18:35:18 (1356)


140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[18:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held mig fast við það að ríkisstjórnin reki atvinnuleysisstefnu. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Hvaða stefna er það sem ríkisstjórnin rekur með erlendum vinnumiðlunum í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hún heldur sérstaka kynningarfundi og boðar fólk til að koma til að leita tækifæri á erlendum vettvangi? Hvað er verið að boða annað en áframhaldandi atvinnuleysi á Íslandi? Þetta er ein skýrasta mynd sem hægt er að fá af þessari stefnu.

Hæstv. ráðherra er mér sammála um að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða á sviði orkufreks iðnaðar, væntanlega á grundvelli skýrslu Landsvirkjunar. Til að svo megi verða þarf að taka ákvarðanir. Það þarf að taka ákvarðanir sem þessi ríkisstjórn er ekki bær til að taka. Hann segir að ekki standi á ríkisstjórninni í þeim efnum. Á sama tíma hafa Vinstri grænir ályktað á þann veg að ekkert svigrúm er gefið til viðræðu um rammaáætlun, þeir gefa ekkert svigrúm til málamiðlana á þeim vettvangi og þessi ríkisstjórn mun ekki geta tekið ákvarðanir um næstu skref. Þeir sem véla um þessi mál fyrir okkur gagnvart áhugasömum, erlendum fjárfestum (Forseti hringir.) eru sammála um að ákvarðanir skorti, þeir geti ekki gefið þau svör til erlendra fjárfesta (Forseti hringir.) sem þarf að gefa til að hlutirnir geti farið hér af stað.