Fjáraukalög 2011

Fimmtudaginn 10. nóvember 2011, kl. 12:12:43 (1449)


140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:12]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur um það sem stendur í meirihlutaálitinu um Vaðlaheiðargöng: „Meiri hlutinn leggur áherslu á að áður en stofnað er til skuldbindinga ríkisins komi málið aftur til fjárlaganefndar og verði kynnt henni með fullnægjandi hætti.“

Er ekki rétt að það megi skilja þetta sem svo að þetta mál verði ekki afgreitt endanlega úr fjárlaganefnd, þ.e. það fari aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. og verði þar þangað til komin er niðurstaða í þá rannsókn sem umhverfis- og samgöngunefnd er að láta fara fram á málinu, því að fjárlaganefnd byggir þetta nefndarálit á þeim upplýsingum sem koma fram í gögnum frá Vaðlaheiðargöngum hf. og í forsendunum sem þeir gefa sér er ekki ein einasta tala um áætlaðar tekjur fyrirtækisins, ekki ein einasta tala um hverjar tekjur þess verða? Það er alveg skýrt í lögum að fyrirtækið á að standa undir (Gripið fram í.) þessum framkvæmdum sjálft en það kemur fram að vaxtakostnaður á ári sé a.m.k. tæpar 600 millj. en engar tölur um tekjur. Ég vil fá þetta á hreint: Er það rétt að þetta mál muni bíða þangað til þetta kemst á hreint?