Umræður um störf þingsins 15. nóvember

Þriðjudaginn 15. nóvember 2011, kl. 13:32:54 (1644)


140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Í umræðu um efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins í síðustu viku ræddum við um verðbólgu og verðtryggingu og ég vakti athygli á því að við í Sjálfstæðisflokknum höfum teflt fram tillögu sem er framsækin. Hún er stærsta skrefið í átt til afnáms verðtryggingar og við viljum svo sannarlega auka framboðið á húsnæðislánamarkaðnum fyrir óverðtryggð fasteignalán.

Engu að síður er það þannig, hvort sem við erum með verðtryggð lán eða óverðtryggð, að verðbólgan verður alltaf óvinur okkar. Það væri fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni hvort hann teldi raunhæft í dag að afnema eða banna verðtrygginguna með öllu. (Gripið fram í: Á morgun.) Ef ekki, ef hann telur það ekki raunhæft hvaða valkost er hægt að bjóða upp á? Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hafi teflt hér fram mjög djörfum valkosti um að allir eigi að eiga þess kost að færa sig yfir í óverðtryggð lán á föstum vöxtum í fimm ár þannig að allir viti mánuð fyrir mánuð fimm ár fram í tímann óháð verðbólgu hver greiðslubyrðin um næstu mánaðamót verður. (Gripið fram í: Það er annað.)

Verkefni okkar sameiginlega er að auka stöðugleikann í íslensku efnahagslífi, að reka ábyrg ríkisfjármál. Það að vera með lága skuldastöðu, greiða niður opinberar skuldir, er öruggasta leiðin til að búa heimilunum öruggt skjól og umhverfi fyrir húsnæðislánamál þeirra sem er ásættanlegt. Við skulum ekki gleyma því sem ég ræddi í umræðunni í síðustu viku að þegar við vorum með óverðtryggt umhverfi voru það einmitt skuldararnir sem vildu losna úr því. En hver var meginástæðan? Það var verðbólgan. Okkar sameiginlega verkefni hlýtur því að vera það, samhliða þessari umræðu um að auka valkostina og losa um heljartak verðtryggingar á húsnæðislánamarkaðnum, sameiginlegt verkefni okkar er að koma verðbólgunni niður. Það er risastórt verkefni.