Kolefnisgjald

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 15:31:19 (1872)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

kolefnisgjald.

[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst hv. þingmaður æsa sig óþarflega mikið yfir þessu, ég held að best sé að halda bara ró sinni og fara yfir þetta. (Gripið fram í.) Ég bauð upp á það á þeim fundi að ef við settum þessi mál í viðræðufarveg og færum yfir skattalega umhverfið allt saman, þar með talið það sem í vændum er varðandi losunarheimildirnar og hvernig það leggst á mismunandi aðila innan geirans, hvaða tekjur ríkið kemur til með að hafa út úr því á komandi árum o.s.frv., tækjum við gildistökuákvæði þessarar breikkunar kolefnisgjaldsins út og í þeim skilningi má segja að þá sé fallið frá þeim.

En hið almenna skattlagningarvald verður auðvitað ekki tekið af Alþingi og í öllum samskiptum okkar við þessa aðila eins og aðra og þegar gerðir eru fjárfestingarsamningar um ný verkefni er því að sjálfsögðu til haga haldið að ekki er hægt að framselja hið almenna skattlagningarvald frá stjórnvöldum, það er til staðar. Við getum ekki skrifað upp á það að ekki verði einhverjar almennar skattkerfisbreytingar á komandi árum eða áratugum. (Gripið fram í.) Menn gerðu það að vísu í gamla daga og þeir fjárfestingarsamningar eru nú ekki góðir. Ef hv. þingmaður er að mæla þeim bót (Forseti hringir.) eins og þeir voru gerðir við járnblendið á sínum tíma væri það nýlunda fyrir mér.