Lögmæti breytinga á verðtollum búvara

Mánudaginn 28. nóvember 2011, kl. 18:53:07 (1947)


140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

lögmæti breytinga á verðtollum búvara.

117. mál
[18:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég hafði nú ekki þá fantasíu að hæstv. ráðherra mundi taka undir með mér og segja: Já, það þarf að breyta og endurskoða alla tollalöggjöf, m.a. varðandi landbúnaðarvörur. Ég boða það hér með að ég mun koma með þingsályktunartillögu sem er í samræmi við ályktun okkar sjálfstæðismanna á landsfundi og felur í sér endurskoðun á tollalöggjöfinni á Íslandi.

Nefndin átti að skila 1. nóvember en hefur ekki enn skilað niðurstöðu. Mér segir svo hugur um að henni liggi ekkert sérstaklega á enda ljóst hver vilji ráðherrans er. Það kemur mér mjög á óvart því að það tók ráðherra ekki mjög langan tíma að skipta á örskotsstundu úr magntollum yfir í verðtolla. Það markmið sem við undirgengumst á sínum tíma, að reyna að auka samkeppni á búvörum innan lands þótt ekki væri nema um 5% — við erum bara að ræða um 5% sem vel að merkja hafa ekki breyst á mjög löngum tíma þrátt fyrir að neysluvenjur landans hafi breyst. Við viljum reyna að auka örlítið samkeppni. En hvað gerðist við breytingarnar við að fara yfir í verðtolla? Núna er lagður 150% tollur á kjúkling og 185% tollur á egg, svo dæmi séu tekin. Það sér sér því enginn hag í því að flytja inn búvörur á þessum kjörum þannig að innflutningur á grundvelli tollkvóta Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur að mestu lagst af.

Ég hvet ráðherra til að sýna að hann er reiðubúinn til að hlusta á gagnrýni þegar nefndin skilar niðurstöðu sinni, hlusta á það sem neytendur kalla eftir, og vissulega að leggja mál og frumvörp fyrir ríkisstjórnina, en mér sýnist að þau séu oftar en ekki tekin af ráðherra.