Viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu

Þriðjudaginn 29. nóvember 2011, kl. 14:20:41 (2014)


140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:20]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er núna, sagði Mahmoud Abbas, á Evrópuráðsþinginu í Strassborg í október, það er núna sem þið eigið að standa við fyrirheitin, það er núna sem þið eigið að efna loforðin, það er núna sem við þurfum viðurkenningu sem ríki, það er núna sem við þurfum atkvæði ykkar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Ég er stoltur af því að vera í þeim hópi sem bregst við þessu kalli palestínsku þjóðarinnar og að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu hér í dag. Það er leiðinlegt að við skulum ekki öll geta verið samferða, en svo verður hver að fljúga sem hann er fiðraður.

Ég vil nefna þrjú nöfn hv. þingmanna í þessum sal og utan hans í þessu samhengi sem er ástæða til að þakka fyrir. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni hlut hans í þessu máli, formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, og hinum frábæra ræðumanni gærkvöldsins, hv. þm. Amal Tamimi.