Viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu

Þriðjudaginn 29. nóvember 2011, kl. 14:22:50 (2016)


140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[14:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mér er það mikið ánægjuefni að vera í þeirri aðstöðu að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu. Það er ákveðin persónuleg forsaga. Ég naut þess sem gutti að hafa næstum því beinan, þó ekki alveg milliliðalausan, aðgang að Yasser Arafat þegar faðir minn fór þangað og hitti hann og ég fékk þá að heyra frá fyrstu hendi hina hliðina á þessu margbrotna og sorglega deilumáli fyrir botni Miðjarðarhafs. Ég hef alla tíð síðan þá haft samúð með málstað Palestínumanna. Það er mér því einkar mikið ánægjuefni að fá að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu.

Faðir minn sagði Arafat frá því að systir mín hefði verið skiptinemi í Ísrael og kynnst líka mjög bágum kjörum og aðbúnaði Palestínumanna þar. Arafat fannst svo mikið til koma þegar hann heyrði þá sögu að hann sendi systur minni jakka. Ég ætla því ekki bara að lýsa yfir stuðningi við málstað Palestínu í þessari atkvæðagreiðslu og þeirri skoðun að ég telji þetta mikið heillaskref fyrir íslensku þjóðina að sýna Palestínumönnum þennan stuðning, og ég tel að sjálfstæð Palestína sé forsenda þess að þarna komist á friður, heldur ætla ég líka að þakka fyrir jakkann.