Fjárlög 2012

Þriðjudaginn 06. desember 2011, kl. 12:45:33 (2550)


140. löggjafarþing — 32. fundur,  6. des. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[12:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Varðandi það sem hv. þingmaður sagði í lok andsvars síns þá held ég að það væri mikilvægt að hv. fjárlaganefnd tæki það fyrir á næsta fundi hvort nefndin sameinist um að flytja þessa breytingartillögu, annars mun ég hugsanlega gera það sjálfur. Ég tel að það væri til mikilla hagsbóta ef hv. fjárlaganefnd gerði það. Þó svo að þingskapanefnd, sem er að endurskoða þingsköpin, sé að störfum eigum við ekki að bíða með það að sníða af þá agnúa sem við sjáum nú þegar.

En að öðru. Á fyrri fund hv. fjárlaganefndar komu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og lögðu fram gögn sem ég staldra mjög við og hef miklar áhyggjur af. Fulltrúarnir lýstu miklum áhyggjum af því að á næsta ári munu falla um 1,5 milljarðar á sveitarfélögin í landinu vegna skerðingar til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er tvennt sem mig langar að staldra við. Annars vegar aukin útgjöld sveitarfélaganna vegna þessara breytinga en hins vegar það sem kom fram í því bréfi sem lagt var fram á fundinum og mér finnst mjög alvarlegt. Það er að þegar atvinnulaust fólk sem hættir að fá bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði og fer yfir í félagsaðstoð sveitarfélaganna, sem skapar þann mismun sem ég er að tala um, útgjaldaaukningu sveitarfélaganna, þá hafa sveitarfélögin í raun og veru ekki úrræði á sviði virkni og vinnumarkaðsúrræða fyrir þá sem eru atvinnulausir. Ég hef töluverðar áhyggjur af þessu vegna þess að það er mjög mikilvægt að halda utan um það þegar fólk lendir í því að hafa ekki vinnu.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hver skoðun hennar er á þessu og hvort við þurfum ekki að skoða þetta sérstaklega vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki sömu úrræði og Vinnumálastofnun gagnvart því fólki sem er á atvinnuleysisbótum.